Tjaldsvæði í tengslum við Fiskidagshelgina

Tjaldsvæði í tengslum við Fiskidagshelgina verða með svipuðum hætti og síðasta ár nema hvað ekki verður hægt að tjalda neðan sundlaugar vegna byggingar íþróttahúss. 

Ekið er inn á tjaldstæði Dalvíkur (aðaltjaldstæði) til vinstri við móts við Olís. Á tjaldsvæðinu er góð aðstaða fyrir gesti t.d. heitt og kalt vatn, snyrtingar, sturtur, losunarbúnaður fyrir húsbíla og aðgangur að rafmagni. Vert er að minna á að okkur er ómögulegt að tryggja öllum gestum aðgang að rafmagni. Gestir verða að sýna tillitssemi og nota rafmagnið á skynsaman hátt þ.e. ekki ofhlaða tengla og framlengingar og nota ekki tæki sem eyða miklu rafmagni t.d. rafmagnsofna. Það veldur því að álag verður of mikið og rafmagni slær út – þá fær enginn rafmagn og það er ekki það sem við viljum.


Einnig er hægt að leggja bílum, vögnum og tjalda á svæðum við tónlistarskólann og milli hans og íþróttahúss. Sýnum útsjónarsemi og tillitssemi við lagningu ökutækjanna og nýtum plássin vel um leið og gætt skal að mátulegri fjarlægð milli þeirra.

Önnur skipulögð tjaldstæði eru þau svæði þar sem gras hefur verið slegið, þau merkt (B, C, D ) og sett upp snyrtiaðstaða og ruslagámar og gæsla er viðhöfð. Þau verða betur auglýst síðar.

Reynt verður að aðstoða við lagningu ökutækja og tjöldun frá því nokkrum dögum fyrir hátíðina, verum jákvæð og tökum vel í athugasemdir gæslumanna. Þeim sem leggja ökutækjum sínum þar sem óheimilt er að leggja verður gert að fjarlægja þau. Einnig er minnt á að gert er ráð fyrir næturró á tjaldsvæðum, líka dagana fyrir hátíðina. Undanfarin ár hafa gestir oft komið mjög seint og raskað ró þeirra sem fyrir eru. Vinsamlegast reynið að komast hjá þessu. Í raun er akstur um tjaldsvæði bannaður að nóttu til.

Tjaldsvæðin eru vel staðsett og í göngufæri við hátíðarsvæði og alla þjónustu og eru þau útbúin með salernum. Eftirlit með tjaldsvæðum verður í höndum knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis og aðstoða þeir gesti við komuna til Dalvíkur.

Að venju sýnum við öðrum gestum tillitsemi á tjaldvæðunum og leggjum bílnum utan tjaldsvæðis þar sem það er mögulegt. Ætlast er til að þeir sem geyma bíla sína inni á tjaldsvæðum hreyfi þá ekki fyrr en við heimferð. Bílastæði eru við grunnskólann, fyrir framan Víkurröst og sunnan æfingasvæðis við innkeyrslu í bæinn. Ekki verður heimilt að geyma bíla á bílastæði sundlaugar vegna plássleysis, það stæði verður aðeins fyrir gesti sundlaugar hverju sinni.

Við minnum á að við aðaltjaldsvæðið er losunarbúnaður fyrir salerni húsbíla. Svo er einnig við bensínstöð Olís neðan tjaldsvæðis. Vinsamlegast notið ykkur þessa aðstöðu í stað þess að losa í venjuleg salerni sem sett verða upp á svæðunum.

Akstursleiðir verða málaðar um aðaltjaldsvæðið svo og nálæg stæði. Þetta er gert í þeim tilgangi að gæta fyllsta öryggis t.d. ef slökkvilið eða sjúkrabílar þurfa að komast að ákveðnum svæðum á sem stystum tíma. Það er eindregin ósk okkar að gestir virði þessar ráðstafanir og auðveldi okkur framkvæmd þeirra með góðri samvinnu og aðstoð. Einnig er minnt á að nauðsynlegt er að hafa í huga bil milli gistieininga, t.d. húsbíla eða tjaldvagna, með brunahættu í huga.

Venjuleg gjaldskrá aðaltjaldsvæðis verður í gangi til fimmtudags, þ.e. fyrir eininguna (húsbíl, fellihýsi osfrv) eru greiddar 1.500 kr á nótt í tvær nætur, þriðju nótt 750 kr og síðan frítt.

Þeim sem koma á fimmtudegi eða síðar og gista á skipulögðum tjaldsvæðum sbr. þá skilgreininugu sem er hér að ofan, er gefinn kostur á að greiða eitt gjald, kr. 2.500 á einingu. Það gjald verði greitt í sundlaug Dalvíkur áður en viðkomandi yfirgefur svæðið, og verða gestir ekki áreittir sérstaklega vegna gjaldsins.

Vakin er athygli á því að einstaklingar undir 18 ára aldri mega ekki tjalda nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum.

VELKOMIN Á TJALDSVÆÐI DALVÍKUR!