Sveitaferð á Steindyr

Sveitaferð á Steindyr

Í gær þriðjudaginn 21. maí fórum við í okkar árlegu sveitaferð og þetta árið fórum við og heimsóttum heimilisfólk og dýr á Steindyrum í Svarfaðardal. Mikill spenningur var að vanda fyrir ferðinni og partur af því var spenningurinn yfir því að fara öll saman í risastórri rútu. Við fengum frábærar móttökur á Steindyrum og heimilisfólkið hafði mikinn metnað fyrir því að leyfa börnunum að vera þátttakendur í sveitastarfinu þessa stuttu stund. Sú upplifun gaf börnunum ofboðslega mikið og varð þeim dýrmæt. Þau verk sem börnin fengu meðal annars að fást við voru að mjólka kýr, knúsa og halda á pínulitlum nýfæddum kettlingum, gefa bæði kindum og kúm hey, klappa hundunum, halda á lambi, sjá hvernig lömbin voru mörkuð o.fl. Notalegt var að heyra kýrnar baula, kindurnar jarma, hanann gala, hundana gelta og kettina mjálma meðan á heimsókninni stóð sem gaf okkur svo sannarlega sveitafílinginn. Að sjálfsögðu var pínu nesti með í för og enduðum við ferðina á að tylla okkur niður í hlöðunni innan um kindur og lömb og gæða okkur á djús og kringlum. Við þökkum heimilisfólkinu á Steindyrum kærlega  fyrir yndislegar móttökur, þeim foreldrum sem komu fyrir samveruna og síðast en ekki síst foreldrafélagi Kátakots fyrir að gera okkur þessa ferð mögulega. Líflegar myndir úr ferðinni má sjá hér á myndasíðunni okkar.