Svarfdælskur mars 2005

Svarfdælskur mars.

Hundrað manna karlakór og heimsmeistarakeppni í brús.

Hápunktur Svarfdælska marsins sem haldinn verður í fimmta sinn nú um helgina verða sameiginlegir tónleikar Karlakórs Dalvíkur og Karlakórs Reykjavíkur í Dalvíkurkirkju kl. 16:00 á laugardaginn. Um 65 félagar úr Karlakór Reykjavíkur hafa tilkynnt komu sína hingað norður en ferðin er í og með hugsuð sem æfingabúðaferð. Félagar í Karlakór Dalvíkur eru um 40 talsins þannig að væntanlegir áheyrendur geta byrjað að hlakka til þess að heyra í þessu hundrað manna hljómeyki karlmannaradda syngja saman af þrótti lög á borð við; Brennið þið vitar, Sefur sól hjá Ægi, Þú álfu vorrar yngsta land og Brimlending. Þá mun hvor kór fyrir sig syngja fjölda laga sem flest tengjast sjó og sjómennsku með einum eða öðrum hætti svo óhætt er að fullyrða að sönn karlmennska ráði ríkjum í Dalvíkurkirkju n.k. laugardag.

Svarfdælski marsinn byrjar að vanda á föstudagskvöldið með heimsmeistarakeppni í brús og hefst hún stundvíslega kl. 20:30 að Rimum í Svarfaðardal. Hátíðinni lýkur einnig að Rimum með sjálfum marsinum sem hátíðin er kennd við og stiginn af meiri þrótti í Svarfaðardal en víðast hvar.  Dansleikurinn hefst kl. 21:00 á laugardagskvöldið. Aðgangseyrir á ballið er kr. 1000. Þátttakendur í heimsmeistarakeppninni borga 500 kr þátttökugjald en frítt er á tónleikana. Það er Sparisjóður Svarfdæla sem er styrktaraðili hátíðarinnar.