Suzukifiðlunámskeið

Dagana 10. - 12. október verður haldið Suzukifiðlunámskeið í Tónlistarskóla Dalvíkur.  Skráðir eru nærri 80 þátttakendur af öllu landinu á aldrinum 4 - 18 ára.  Alls munu verða hér um 200 manns foreldrar og börn.  Námskeiðið hefst kl. 17 á föstudaginn og lýkur á sunnudaginn.  Þátttakendum verður skipt niður í 5 hópa sem æfa í tónlistarskólanum og síðan er hljómsveit sem æfir í sal Dalvíkurskóla.  Námskeiðinu lýkur svo með tónleikum í Dalvíkurkirkju kl. 13.30.  Kennarar verða Tove og Béla Detrekov og Claus en þau eru öll meðal virtustu Suzukikennara í Evrópu.  Auk þeirra verða hér nokkrir íslenskir kennarar við kennslu þar á meðal Anna Podhajska sem er hvatamaður að því að koma þessu námskeiði á laggirnar en hún hefur séð um svipuð námskeið í Póllandi á sumrin.  Þetta er samvinnuverkefni milli Tónlistarskóla Dalvíkur og Tónlistarskólans á Akureyri og munu erlendu kennararnir halda námskeið á Akureyri fyrir Suzukikennara af öllu landinu eftir helgina. Foreldrafélag Suzukinemenda hér og á Akureyri hefur tekið virkan þátt í undirbúningnum.