Skógreitur í fólkvanginum

Skógreitur í fólkvanginum

Skógreiturinn í fólkvanginum í Böggvisstaðafjalli er líklega eitt best falda leyndarmálið í sveitarfélaginu. Hann hefur verið í stöðugri þróun undanfarin ár og er það ekki síst myndarleg peningagjöf Sveins B. Ólafssonar frá Syðra-Holti sem gerði það kleift að ráðast í svo mikla uppbyggingu, en plantað hefur verið í reitinn og svæðið í kringum hann jafnt og þétt. Búið er að leggja göngustíga í gegnum reitinn sem og út frá honum. Eins hefur verið komið upp borðum og grilli og er staðurinn því orðinn hinn ákjósanlegasti fyrir göngutúra og lautarferðir fjölskyldunnar.

Þessa dagana er verið að ganga frá aðkomu að reitnum en hlaðnir veggir eiga að taka á móti gestum þegar framkvæmdum lýkur. Innkoman í reitinn verður því sérlega aðlaðandi og eru íbúar og gestir hvattir til að nýta sér þessa skemmtilegu aðstöðu sem þarna er að skapast.