Septemberspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Septemberspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Þriðjudaginn 5. september 2017 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar til að huga að veðurhorfum í þessum mánuði. Að þessu sinni var tilefni til að fara yfir sannleiksgildi síðustu spár og reyndist hún hafa gengið prýðilega eftir eins og við var að búast. Oft er horft til veðurfars á höfuðdegi þann 29. ágúst sl. Þann dag var votviðri framan af degi og bendir það til þess að nokkuð yrði um rigningar fyrrihluta september mánaðar. Margir taka mið af veðri þann 1. september, en þá var eins og flestir muna bjart og gott veður. Samandregið er reiknað með að veður í september verði ámóta og verið hefur. Þó heldur vætusamara og kólnandi.

Eldri menn höfðu þá trú að ef kólnaði snemma í september og gránaði í fjöll, sem kallað var “haustkálfur” benti það til þess að haustið yrði gott og væntum við þess að það gangi eftir.

Veðurvísa  ágúst og sept.

Í ágúst slá menn engi
og börnin tína ber.
September fer söngfugl
og sumardýrðin þverr.

 Með gagnakveðju, Veðurklúbburinn á Dalbæ