Óskar Jónsson bifreiðastjóri og fv forstjóri flutningafyrirtækis á Dalvík heiðraður

Óskar Jónsson bifreiðastjóri og fv forstjóri flutningafyrirtækis á Dalvík heiðraður

Á Fiskideginum mikla, laugardaginn 9. ágúst var Óskar Jónsson bifreiðastjóri og fv forstjóri flutningafyrirtækis á Dalvík heiðraður. Fiskidagurinn mikli hefur frá upphafi heiðrað einhvern eða einhverja sem með verkum sínum hafa skipt máli fyrir sjávarútveg á Dalvík eða jafnvel á landinu öllu. Er þá litið til þeirra þátta sem mikilvægir eru fyrir þróun og framgang greinarinnar.

Það var Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri sem afhenti Óskari viðurkenningu þessu tengt og sagði þá meðal annars: “Góðar samgöngur eru eitt af því sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þær eru eiginlega lykillinn að velgengni hvort sem er fyrirtækja eða sveitarfélaga. Hraði í samskiptum og örugg afhending vöru skiptir öllu fyrir framleiðslufyrirtæki eins og fiskvinnlu. Gildir þá einu hvort um er að ræða hráefni og önnur aðföng sem flutt eru til framleiðslunnar eða fullunna vöru sem koma þarf til kaupenda.

Mest af þeim afla sem unnin er í fiskvinnslu á Dalvík kemur með bílum eftir þjóðvegunum. Síðan er fullunninni vöru ekið til þeirra hafna þar sem flutningaskip taka við henni til útflutnings, eða henni er ekið á flugvöll og flogið með hana beint á markað. Þarna skipta góðar samgöngur sköpum. Samgöngur hafa því ráðið miklu um þróun sjávarútvegs, og þar með þróun byggðar í landinu.

Það var árið 1946 að vöruflutningar með bílum hófust á milli Dalvíkur og Reykjavíkur. Óskar Jónsson bifreiðastjóri fór fyrstu ferð til slíkra flutninga
1. maí 1946 til að ná í veiðarfæri. Óskar hóf síðan akstur á eigin bifreið tveimur árum síðar og eru því 60 ár síðan segja má að reglubundinn akstur hafi hafist á milli Dalvíkur og Reykjavíkur. Þegar í upphafi þjónaði vöruflutningafyrirtæki Óskars Jónssonar sjávarútveginum.

Í byrjun níunda áratugarins hófust að marki flutningar á fiski milli staða þegar fiskverkendur voru m.a. að kaupa fisk á vertíðarsvæðunum og flytja í vinnslu á Dalvík og árið 1982 keypti Óskar fyrsta flutningabílinn fyrir frosnar og kældar sjávarafurðir, sérbúinn með góðri einangrun. Síðan hefur þróast viðamikið flutningakerfi með fisk frá einum stað til annars ekki síst eftir tilkomu fiskmarkaða.

Fyrirtæki Óskars, Ó Jónsson og co, skipulagði strax í byrjun góða þjónustu á þessu sviði og var þar í fararbroddi flutningafyrirtækja. 1995 var fyrirtækið sameinað fleiri fyrirtækjum undir merkjum Landflutninga sem nú er hluti af flutningsneti Samskipa hf.
Já, góðar samgöngur skipta sköpum og það er ekki síst fyrir framsýni Óskars Jónassonar að Dalvíkurbyggð hefur getað skipað sér í framstu röð fiskframleiðenda og fiskútflytjenda. Þess vegna er Óskar heiðraður hér í dag.”