Umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrk

Umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrk

Athugið að frestur til að sækja um sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk hefur verið framlengdur til 31. júlí nk. og falla því sumarnámskeið barna undir að þessu sinni.
Við viljum hvetja alla til að kanna rétt sinn til styrksins en sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Ísland.is (https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs)

Sjá upphaflega frétt frá 21. desember 2021 hér fyrir neðan:

Opnað hefur verið fyrir umsóknir á sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum þar sem markmiðið er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Styrkirnir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrkjum sveitarfélaga. Alls verður um 900 milljónum króna varið í verkefnið árin 2020 og 2021 en Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti aðgerðina í vor og er hún hluti af aðgerðapakka sem ætlað er að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á afkomu efnaminni heimila í landinu. Í framhaldinu verður ráðist í vitundavakningu í samstarfi við menntamálaráðuneytið, sveitarfélög, Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands.

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og um 13.000 börn eiga rétt á styrknum. 

Styrkina er hægt er að nota til  niðurgreiðslu á þátttökugjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistanáms eða annarra tómstunda. Sveitarfélög setja reglur um úthlutun styrkjanna en fyrirkomulag getur verið breytilegt á milli sveitarfélaga til dæmis varðandi hvaða íþrótta- og tómstundastarf er styrkhæft, hvaða gögnum beri að skila með umsókn og afgreiðslutími umsókna.

Rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt er að halda sem flestum börnum virkum í íþrótta- og frístundastarfi og tryggja jafnt aðgengi barna og unglinga að slíku starfi. Lögð hefur verið áhersla á að ná til sem flestra forráðamanna og hefur því verið komið af stað kynningarátaki á fjölda tungumála um íþrótta- og tómstundastyrkina.

Sjá skýringarmyndbönd á ýmsum tungumálum hér

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Covid-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á allt íþrótta- og tómstundastarf í landinu. Þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna er mikil hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi og það á sérstaklega við um fjölskyldur í neðri hluta tekjudreifingarinnar. Rannsóknir sýna að íþróttir og frístundir hafa forvarnargildi og því er gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum vegna faraldursins.”

ENSKA - ENGLISH

PÓLSKA - POLSKI