Önnur ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Nykurtjörn

Önnur ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar, Nykurtjörn

Farin var önnur ganga Gönguviku Dalvíkurbyggðar í ágætisveðri í dag. Tíu manns hófu og luku ferð. Farið var frá Steindyrum í Svarfaðardal og upp með Steindyragili. Klettar og vatn voru víða á leið göngufólks og glöddu augað ásamt litskrúðugum blómum. Kristján Eldjárn Hjartarson fræddi hópinn um grösin og sagði sögur af Bakkabræðrum sem hlupu þarna um og gerðu marga ógáfulega hluti. Gönguhópurinn var einnig fræddur um tilurð Nykurtjarnar ásamt sögu um nafngiftina.

Talið var að Nykur einn byggi í tjörninni. Á veturna varð hann að húka undir ís, en á vorin sprengdi hann af sér klakabeltin og við það kom mikil flóðbylgja niður í Svarfaðardal og hlífði hún engum. Grundarbændur sem bjuggu hvað næst þessum gríðarlegu flóðbylgjum fór að gruna að kannski væri þetta ekki Nykur sem byggi þarna heldur ætti þetta sér líklegri skýringar. Eftir að hafa skoðað þetta eitt vorið komust menn að því að snjóbrú mikla lagði yfir lækinn sem rennur niður Gundargilið frá Nykurtjörninni. Þegar hitnaði í veðri hrundi hún og stíflaði lækinn marga daga. Á meðan safnaðist saman mikið vatn í tjörninni og á ákveðnum tímapunkti brast stíflan með miklum látum og flóðbylgju. Eftir þessa uppgötvun fóru menn á hverju vori og mokuðu burtu þessari snjóbrú. Á seinni tímum hefur verið farið á snjósleða með sand og honum dreift á snjóinn svo hann bráðnar mjög fljótt. Eftir stóru uppgötvunina  hefur engin flóðbylgja komið niður hlíðar frá Nykurtjörn, en nafnið stendur óhreyft.

Fólk var ákaflega ánægt með ferðina sem endaði við Sundskála Svarfdæla sem er ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins. Næsta ferð er á morgun þriðjudag upp í Vatnsdal að Skeiðsvatni. Farið er frá Koti innsta bæ í Svarfaðardal klukkan 11:00.

Fleiri myndir úr Gönguviku Dalvíkurbyggðar