Október - Tengja Húsabakkaskóla er komin út.

Þrátt fyrir verkfall Félags grunnskólakennara þá kemur Tengja, fréttabréf Húsabakkaskóla út eins og ekkert sé. Í október Tengju eru upplýsingar um skólastarfið eins og það myndi verða ef ekkert verkfall væri í gangi. Foreldrar og aðrir sem fylgjast með skólastarfinu vita þá hvað verður á seyði í Húsabakkaskóla um leið og verkfalli hefur verið aflýst.

Allt lítur út fyrir að verkfalli verði ekki aflýst í yfirstandandi viku, það þýðir að engin er gisting eldri nemenda á morgun og að haustfundi foreldra sem vera átti þann 30. september n.k. er aflýst. 

 Starfsdagur kennara 1. okt.:

Ef svo ólíklega vildi til að verkfalli hafi verið aflýst fyrir 1. október nk. þá mun sá dagur vera starfsdagur kennara og það þýðir frí hjá nemendum. Á skóladagatalinu er merkt inn Haustþing Bandalags kennara á Norðurlandi eystra. Þann dag var áætlað að hafa starfsdag kennara svo þeir gætu sótt námskeið sem eru í boði á haustþinginu. Ef verkfallið stendur enn þennan dag mun hins vegar ekkert verða að neinu.

Söngur á sal, 11. og 25. október:

Söngur á sal er annan hvern mánudag í vetur. Þá safnast nemendur og starfsfólk skólans saman í litla salnum á Rimum kl. 11:25-11:55 og syngja undir stjórn Hjörleifs Hjartarsonar. Allir er velkomnir á söng á sal.

Samræmd próf 4. og 7. bekkjar, 14. og 15. október:

Nemendur 4. og 7. bekkjar eiga að taka samræmt próf í íslensku þann 14. október og í  stærðfræði þann 15. október. Foreldrar nemenda í þessum árgöngum hafa þegar fengið bréf Námsmatsstofnunar heim með nemendum.

Kennaranemar 18. okt. til 19. nóv.:

Við erum svo heppin í Húsabakkaskóla að hingað koma kennaranemar frá KHÍ og verða hjá okkur í fimm vikur. Nemarnir heita Erna Þórey og Marín Hallfríður og eru á síðasta ári í kennaranámi sínu. Þær munu aðallega fylgja 7. og 8. bekk í íslensku og samfélagsgreinum. Einnig verða þær eitthvað hjá 4. 5. og 6. bekk.

Kvöldvaka og gisting:

Á skóladagatali Húsabakkaskóla kemur fram að kvöldvaka og gisting eigi að vera þann 25. október n.k. Þar sem dagskrá fyrir kvöldvöku og gistingu septembermánaðar var tilbúin og er nokkuð óhefðbundin hef ég ákveðið að fyrsta kvöldvaka og gisting vetrarins verði eins fljótt og kostur er eftir að verkfalli hefur verið aflýst.

Þá stendur nefnilega til að nemendur heimsæki Listasafnið á Akureyri og skoði þar sýningu Boyle fjölskyldunnar sem heitir Ferð að yfirborði jarðar. Arna Valsdóttir sem kenndi myndmennt á Húsabakka fyrir nokkrum árum ætlar þar að taka á móti hópnum og fræða nemendur um listamennina og verk þeirra. Hægt er að fræðast um þessa sýningu á vef Listasafns Akureyrar http://www.listasafn.akureyri.is/. Eftir heimsóknina á Listasafnið er ætlunin að fara í sund og síðan að snæða einhvers staðar flatböku, bruna síðan heim á Húsabakka og gista þar.

Hvað yngri nemendur varðar þá stóð til að þeir færu einnig þann sama dag í lystitúr til Akureyrar en aðeins fyrr á deginum og að dagskráin yrði í svipuðum dúr og hjá þeim eldri. Þetta mun allt verða ljóst þegar verkfalli hefur verið aflýst og munu foreldrar fá Ferða - Tengju heim með nemendum þegar skólastarfið fellur aftur í sínar eðlilegu skorður. 

Danskennsla:

Um leið og verkfalli hefur verið aflýst fer danskennslan aftur af stað. Hún mun fara fram á þriðjudögum. Það er Ingunn M. Hallgrímsdóttir danskennari sem annast kennsluna. 

Framtíð Húsabakkaskóla:

Miðvikudaginn 22. ágúst sl. hélt fræðsluráð Dalvíkurbyggðar fund þar sem starfsmenn H.A. kynntu niðurstöður á hagkvæmnisathugun þeirra á sameiningu Dalvíkurskóla og Húsabakkaskóla. Foreldrar eru hvattir til þess að fylgjast með framgangi þessara mála. Það er t.d. hægt að gera með því að vera í sambandi við stjórn foreldrafélagsins. Ný stjórn var kosin á síðasta aðalfundi þann 13. september sl. Stjórnina skipa, Trausti Þórisson Hofsá, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Brimnesbraut 31 og Kristín Gunnþórsdóttir, Bakka. Áheyrnarfulltrúi foreldra í fræðsluráði er Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku.

Með kveðju frá Húsabakka

Ingileif