Nýr verkefnastjóri SSNE á Tröllaskaga

Nýr verkefnastjóri SSNE á Tröllaskaga

Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og SSNE hafa tekið upp samstarf um starfsstöð SSNE á Tröllaskaga. Skrifstofan er í Ólafsfirði og var formlega opnuð í gær með starfsmanni sem hefur með höndum verkefnisstjórn í atvinnuþróun og nýsköpun. Einnig er skilgreind viðvera sama starfsmanns á Dalvík, á Skrifstofum Dalvíkurbyggðar í Ráðhúsinu, að jafnaði einu sinni í viku á þriðjudögum til að byrja með.

Anna Lind Björnsdóttir hefur verið ráðin í starfið og hóf hún störf í síðustu viku. Hún er ættuð frá Siglufirði en ólst upp í Reykjavík. Síðustu 10 ár hefur hún verið búsett í Svíþjóð og Noregi og flutti nýverið aftur heim.

Anna Lind er menntaður ferðamálafræðingur og hefur B.A gráðu frá Háskólanum á Hólum og M.Sc. gráðu í náttúrutengdri ferðaþjónustu frá NMBU, Háskólinn í Ås í Noregi.

Hún hefur umfangsmikla reynslu af verkefnastjórnun, stærri og minni verkefna, og ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga. Síðustu ár hefur Anna Lind starfað sem viðskiptafulltrúi hjá sendiráði Íslands í Osló, þar sem meginhlutverk hennar var m.a. að greiða leið og gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja og einstaklinga Í Noregi. Hún hefur einnig starfað í ferðaþjónustu við að skipuleggja ferðir og markaðssetja Ísland og Grænland sem áfangastað og hefur starfað hjá Ferðafélagi Noregs. Þá hefur Anna Lind verið stundakennari við viðskiptadeild Háskólans í Suð-austur Noregi (USN).

Anna Lind er spennt fyrir komandi verkefnum hjá SSNE enda er svæðið stútfullt af framsæknu fólki með drifkraft og tækifærin á hverju strái. Hægt er að ná í hana í annalind@ssne.is