Niðurstaða atvinnulífskönnunar í Dalvíkurbyggð

Í nóvember 2015 fór fram atvinnulífskönnun í Dalvíkurbyggð en það var atvinnumála- og kynningarráð sveitarfélagsins sem stóð fyrir henni og voru niðurstöður hennar kynntar á opnum fundi í Bergi menningarhúsi síðastliðinn þriðjudag. Heildarniðurstöðurnar eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is .

Markmiðið með könnuninni var að fá góða heildarsýn yfir stöðu atvinnulífsins eins og hún er núna en atvinnumála og kynningarráð, ásamt fleirum, vinnur að gerð atvinnu- og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og er þessi könnun mikilvægur grunnur fyrir áframhaldandi vinnu við gerð hennar.

Könnunin var send út rafrænt á 151 fyrirtæki með lögheimili í Dalvíkurbyggð. Svör bárust frá 89 fyrirtækjum, úr ýmsum atvinnugreinum, sem gerir 59% svarhlutfall. Heildarfjöldi spurninga var 32 og fjölluðu þær um ýmis málefni sem snerta atvinnulífið, svo sem starfsmannafjölda, menntun starfsmanna, afstöðu til nýsköpunar og áhrif stoðþátta á afkomu.

Almenn jákvæðni gagnvart nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu og samstarfi
Niðurstöðurnar benda eindregið til þess að atvinnulífið sé almennt jákvætt gagnvart nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu og samstarfi og sé tilbúið til þess skoða nýja möguleika þar að lútandi. Varðandi samstarfsmöguleika sérstaklega þá nefndu fyrirtæki þætti eins og markaðssetningu, nýsköpun, samgöngur og flutninga, vöruþróun, starfsmenn, húsnæðismál og búnaðarkaup svo eitthvað sé nefnt.

Tækifæri til að efla menntun vinnuaflsins
Könnunin gefur einnig til kynna að við höfum hér tækifæri til þess að efla enn frekar menntun vinnuaflsins en 53% fyrirtækja myndu vilja efla frekar sérhæfða menntun fyrir sína starfsemi auk þess sem að 70% starfa í Dalvíkurbyggð krefjast mjög lítillar eða engrar háskólamenntunar. Þennan þátt er hægt að vinna frekar með en ein leiðin til að auka fjölbreytni starfa í sveitarfélaginu er að auka möguleikana fyrir háskólamenntað fólk.

Efla fjölbreytni í atvinnulífi
Einhverjir þátttakendur höfðu áhyggjur af því að atvinnulífið væri einhæft og að of mörg egg væru í sömu körfunni. Það jákvæða er hins vegar að fyrirtækin eru opin fyrir leiðum til eflingar fyrir atvinnulífið og komu fram með ýmsar hugmyndir þar að lútandi eins og til dæmis að laða að ný fyrirtæki á staðinn, auka nýsköpun og að auka möguleika í matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og landbúnaði.

Heilt yfir góð niðurstaða
Heilt yfir er niðurstaða könnunarinnar góð og ljóst er að til staðar eru tækifæri til sóknar. Það er ekki verkefnaskortur og velta hefur almennt aukist síðustu ár. Það er líka jákvætt að 43% fyrirtækja telja sig þurfa að fjölga starfsfólki sem bendir til þess að atvinnulífið sé í vexti. Jafnframt sýnir könnunin að atvinnulífið hefur áhuga á frekari framþróun og er viljugt til verka þannig að niðurstaðan er heilt yfir jákvæð fyrir þennan málaflokk.
Atvinnumála- og kynningarráð mun núna halda áfram að vinna með niðurstöðurnar en eins kom fram hérna í upphafi vinnur ráðið, ásamt fleirum, að gerð atvinnu- og auðlindastefnu og munu þessar niðurstöður verða nýttar að einhverju leyti inn í þá vinnu.