Metár hjá Björgúlfi EA

Metár hjá Björgúlfi EA

Ísfiskskipið Björgúlfur EA 312, sem er í eigu Samherja, veiddi alls 5.000 tonn á árinu 2003 og nam aflaverðmætið rúmum 526 milljónum króna. Þetta er mesti afli sem skipið hefur komið með að landi á einu ári og telja forsvarsmenn Samherja að hér sé um að ræða mesta aflaverðmæti sem íslenskur ísfisktogari hefur skapað á einu og sama árinu.


Afli skipsins var að langstærstum hluta þorskur, eða um 3.600 tonn. Þá veiddi skipið um 650 tonn af ýsu, 350 tonn af ufsa, rúm 200 tonn af karfa og samtals um 200 tonn af öðrum tegundum. Aflinn fór nær allur til vinnslu í starfsstöðvum Samherja á Dalvík og Stöðvarfirði.


Hörkutarnir inn á milli
"Heilt yfir má segja að veiðarnar á árinu hafi gengið vel og algerlega stóráfallalaust," segir Sigurður Haraldsson, skipstjóri á Björgúlfi EA. Hann segist sáttur við afraksturinn en þó sé erfitt að beita samanburði á milli ára í seinni tíð, því rekstrarumhverfið hafi breyst svo mikið. "Það má eiginlega segja að þetta sé rólegt líf hjá okkur á köflum en svo koma hörkutarnir inn á milli og þá verða vaktirnar stundum langar. En ég er með gott skip og góða áhöfn sem veit um hvað þetta snýst og það hefur auðvitað sitt að segja," segir Sigurður.

Björgúlfur EA er nú í sinni annarri veiðiferð á nýju ári; á Vestfjarðamiðum.

Frétt af www.local.is

mynd af www.skipaskrá.is Hafþór Hreiðarsson