Mars - TENGJA

Hinn annasami febrúar er nú liðinn og okkur á Húsabakka fannst hann líða nokkuð hratt. Það er ekki skrýtið því að í febrúar vorum við með námsmat, öskudag, vetrarfrí, skautaferð á Akureyri, kórabúðir og upplestrarhátíð.

Á upplestrarhátíðinni voru valdir fulltrúar skólans í Stóru upplestrarkeppninni sem mun fara fram í apríl nk. Fulltrúar okkar að þessu sinni eru Brynja Vilhjálmsdóttir og Þórhildur Sara Árnadóttir. Húsbekkingar óska þeim til hamingju.

Framtíð Húsabakkaskóla:

Á bæjarstjórnarfundi þann 1. mars sl. samþykkti bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar tillögu sem hefur í för með sér að frá og með næsta hausti verður ekki skólahald á Húsabakka. Þorri íbúa Svarfaðardals mótmæltu þessari tillögu á eftirminnilegan hátt. Hér með er öllum sem hafa sýnt skólanum stuðning sinn þakkað fyrir framlag þeirra.

Söngur á sal:

Söngur á sal verður bara einu sinni í mars þ.e. mánudaginn 7. mars. Söngur á sal fer fram í litla salnum á Rimum kl. 11:25  til 11:55. Allir eru velkomnir.

Þemadagar 14.-18. mars:

Þemadagar vorannar eru í vikunni fyrir páskafrí. Í tvær kennslulotur innan stundaskrár vinna allir nemendur að sameiginlegu þema. Í þemavinnunni vinna nemendur í blönduðum aldurshópum og miðar vinnan við að nemendur úr sem flestum námshópum vinni saman. Þema ársins hefur ekki enn verið ákveðið en Tengja með upplýsingum um fyrirkomulag þessara daga verður send heim með nemendum þegar nær dregur. Eftir að kennslu samkvæmt stundaskrá lýkur tekur við önnur dagskrá fyrir nemendur 5. - 8. bekkjar. Sú dagskrá verður með þemanu útivist og hreyfing og verður stundaskrá þeirrar dagskrár dreift til nemenda í lok næstu viku. Foreldrar nemenda 5. -8. bekkjar geta reiknað með að börn þeirra verði í skólanum til kl. 18:00 dagana 14., 15., og 16. mars en 17. mars er gisting í skólanum.

Skíðaferð Húsbekkinga:

Ef allur snjórinn verður ekki horfinn úr Böggvisstaðafjalli er áætlað að vera í fjallinu á skólatíma föstudaginn 18. mars. Þá er kennt í fyrstu lotu og lagt síðan af stað eftir morgunmat og nemendur koma heim eins og um venjulegan skóladag væri að ræða. Foreldrar fá nánari upplýsingar heim með nemendum í Þema Tengju. 

Páskafrí 21. -29. mars;

Húsbekkingar verða í páskafríi frá og með 21. mars til og með 29. mars.

Starfsdagur kennara - frí hjá nemendum:

Þriðjudaginn 29. mars er starfsdagur kennara og þá er frí hjá nemendum.

Skólahjúkrunin:

Lilja Vilhjálmsdóttir skólahjúkrunarfræðingur sem hefur verið til viðtals hjá okkur alla miðvikudaga í vetur kl. 10:30-11:30 var í veikindaleyfi í febrúar og mun verða það eitthvað áfram. Friðrika Jakobsdóttir hjúkrunarfræðingur mun leysa Lilju af fram í miðjan mars. Hún verður til viðtals í skólanum föstudaginn 4. mars kl. 10:30-11:00. Einnig verður hægt að fá þjónustu skólahjúkrunarfræðings með því að hafa samband við Heilsugæslustöðina á Dalvík í síma 466 1500.

Fullorðinsfræðslan:

Það sem af er vorönn hefur verið mikil aðsókn að námskeiðum fullorðinsfræðslunnar. Næstu námskeið eru í apríl. Annað er tölvunámskeið og hitt er bakstur ítalskra brauða.

Tölvunámskeiðið er skipulagt í samvinnu við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Tölvufræðsluna á Akureyri. Námskeiðslýsing fylgir með mars-Tengju. Skráning fer fram á netfanginu husabakki@dalvik.is eða í síma 466 1551 og þurfa þátttakendur að hafa skráð sig fyrir fimmtudaginn 14. apríl.

Námskeiðið í bakstri ítalskra brauða verður haldið sunnudaginn 17. apríl kl. 11:00-14:00 í mötuneyti Húsabakkaskóla. Kennari er Friðrik V. Karlsson, matreiðslumeistari. Námskeiðsgjald tekur mið af fjölda þátttakenda það getur minnst orðið 1.000.- kr. og mest  2.000.- kr. Lágmarksfjöldi þátttakenda er fimm en hámarksfjöldi tíu. Skráning fer fram á netfanginu husabakki@dalvik.is eða í síma 466 1551. Skráningu lýkur fimmtudaginn 14. apríl.

Með kveðju frá Húsabakka,

Ingileif