Kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal 100 ára

Kvenfélagið Tilraun í Svarfaðardal 100 ára

Þann 1. apríl 2015, verða hundrað ár síðan Kvenfélagið Tilraun var stofnað. Þessara merku tímamóta í sögu félagsins – og byggðarlagsins verður meðal annars minnst með því að gefa út afmælisrit sem dreift verður á öll heimili í Dalvíkurbyggð. Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur hefur safnað efni í ritið og unnið úr því.

Starfssvæði félagsins nær í dag til Svarfaðardals og Dalvíkur eins og á fyrstu áratugunum í sögu þess. Í ritinu verður fjallað um félagsstörf kvenna, stofnun kvenfélagsins og helstu frumkvöðla þess og forystukonur. Fáeinar kvenfélagskonur munu taka til máls á síðum ritsins. Þær munu ekki aðeins lýsa félagsstörfum heldur einnig því umhverfi sem fóstraði þær og samferðarmenn þeirra. Kastljósinu verður jafnframt beint að helstu baráttumálum félagsins. Þau verkefni sem félagskonur beittu sér fyrir eru ágætis spegill á þróun heilbrigðis- og velferðarmála á þeirri öld sem liðin er síðan kvenfélagið var stofnað. Félagið hefur þannig lagt töluvert af mörkum við að byggja upp mikilvæga innviði samfélagsins. Þá verður einnig fjallað um framlag félagsins til mennta- og menningarstarfa. Kvenfélagskonur – bæði fyrr og síðar – mótuðu með starfi sínu fjölbreyttara og litríkara mannlíf í byggðarlaginu. Ekki verður unnt að rekja sögu félagsins í löngu máli en áhersla lögð á að draga einstaka þætti starfssögunnar fram í dagsljósið, bæði þá sem flestir þekkja í dag en einnig hina sem myrkur sögunnur hefur hulið. Spor Kvenfélagsins Tilraunar liggja víða – mun víðar en margur hyggur. Markmið félagsins með útgáfu afmælisritsins er ekki aðeins að heiðra minningu genginna félagskvenna heldur að vekja athygli á framlagi formæðra okkar við uppbyggingu þess samfélags sem íbúar Dalvíkurbyggðar njóta í dag.

Á sjálfan afmælisdaginn, þann 1. apríl n.k. kl. 14:30 fagna félagskonur sem nú eru um fimmtíu talsins, afmælinu með því að afhenda Dalbæ, heimili aldraðra á Dalvík veglega gjöf til heimilisins. Um kvöldið fagna félagskonur svo afmælinu í Menningarhúsinu Bergi.

Þann 11. apríl býður félagið til afmælisfögnuðar með dagskrá og kaffiveitingum að Rimum í Svarfaðardal. Fleiri viðburðir eru fyrirhugaðir á árinu og verða auglýstir þegar nær dregur.

Stjórn félagsins skipa:
Formaður: Halla Soffía Karlsdóttir, Hóli, Svarfaðardal
Ritari: Ingibjörg Ragnheiður Kristinsdóttir, Hnjúki, Skíðadal
Gjaldkeri: Hildur Birna Jónsdóttir, Ytra Garðshorni, Svarfaðardal