Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2005

Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2005

Þann 30. desember síðastliðinn voru birt úrslit úr kjör á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2005. Að þessu sinni varð Björgvin Björgvinsson hlutskarpastur, en þetta er þriðja árið í röð sem hann hlýtur þennan titil. Starfandi íþrótta - og æskulýðsfulltrúi, Jón Heiðar Rúnarsson, lýsti kjörinu.

Björgvin er einn fremsti íþróttamaður landsins í dag og hefur síðustu ár verið fastamaður í landsliði Skíðasambands Íslands. Árið 2005 hefur hann æft með landsliðinu sem hefur stærstan hluta ársins dvalið erlendis við æfingar og keppni. Síðastliðinn vetur tók hann þátt í mörgum alþjóðlegum mótum, bæði FIS og evrópubikarmótum og fikraði sig upp lista alþjóða skíðasambandsins. Á Skíðamóti Íslands síðastliðið vor varð hann Íslandsmeistari í stórsvigi, annar í svigi og sigurvegari í alpatvíkeppni. Haustið 2005 náði hann glæsilegum árangri, þeim næst besta sem íslenskur skíðamaður hefur náð frá upphafi, er hann varð hlutskarpastur í Ástralíu/Nýjasjálandsbikarnum, keppni sem gengur undir nafninu Álfubikarinn og er mjög sterk mótaröð þar sem margir af sterkustu skíðamönnum heims mæta til leiks. Á nýjasta heimslista FIS er Björgvin í 78 sæti í svigi og 137 sæti í stórsvigi en betri árangri hefur aðeins einn skíðamaður náð til þessa. Björgvin hefur verið valinn til þess að taka þátt í Ólympíuleikunum sem fram fara í Torino á Ítalíu í febrúar 2006 og hefur allur undirbúningur síðustu mánuði tekið mið af þessum stórviðburði.

Auk Björgvins Björgvinssonar voru eftirtaldir tilnefndir sem íþróttamenn Dalvíkurbyggðar:

Harpa Lind Konráðsdóttir       Frjálsar íþr.     Ungmennafélagið Reynir
Helena R. Frímannsdóttir        Blak               Blakfélagið Rimar
Jóhannes B. Skarphéðinsson  Körfubolti        Ungmennafélag Svarfdæla
Jón Geir Árnason                   Knattspyrna    Ungmennafélagið Reynir
Sigurður I. Rögnvaldsson       Golf                Golfklúbburinn Hamar
Sindir Vilmar Þórisson            Sund              Sundfélagið Rán
Stefán R. Friðgeirsson            Hestaíþróttir    Hestamannafélagið Hringur
Sveinn Elías Jónsson              Knattspyrna    Ungmennafélag Svarfdæla

 

 

Eins og áður sagði lýsti Jón Heiðar Rúnarsson, starfandi íþrótta - og æskulýðsfulltrúi kjörinu og afhenti, ásamt bæjarstjóra, ofangreindum íþróttamönnum verðlaunabikara og blómvendi.