Hvít krækiber og svört bláber?!

Hvít krækiber eru tiltölulega sjaldgæf sjón og sama gildir um aðrar plöntur í náttúrunni sem skortir náttúruleg litarefni, en í Morgunblaðinu í gær var sagt frá krækiberjalyngi í Ásahrauni með hvítum berjum. Hörður Kristinsson, fléttufræðingur á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands, segir hvít afbrigði plantna vera afleiðingu stökkbreytingar sem eyðileggi á tilteknum tímapunkti það ferli sem þarf til að framleiða litarefni í plöntum eða berjum. Breytingin sé yfirleitt arfgeng en erfiðara sé að segja til um hvar á vaxtarskeiðinu hún eigi sér stað.

Hvítt blóðberg, ljósberi og smjörgras
Hörður segist einkum hafa heyrt getið um hvít krækiber á Vestfjörðum en þau geti í raun sprottið hvar sem er á landinu. "Ég segi fyrir mitt leyti ég er búinn að tína krækiber í nokkra áratugi og hef aldrei rekist á þau." Blóm plantna, einkum plantna sem bera bleik og rauð blóm, geta í einstaka tilfellum verið hvít. "Mér finnst svona samkvæmt reynslunni að þetta sé algengara með rauð blóm en til dæmis blá og að þeim mun meira sem komið er út í blátt þeim mun sjaldgæfara virðist það vera." Hann nefnir sem dæmi hvítt lambagras, blóðberg og hvítan ljósbera. Meðal blárra blóma hefur einstaka sinnum fundist blátt smjörgras og fjalladepla.

Svört aðalbláber algeng á Norðurlandi og Vestfjörðum
Annað fyrirbæri sem er þekkt hér á landi en engin skýring hefur fundist á eru, að sögn Harðar, svört aðalbláber. "Þau eru nefnilega ýmist blá eða svört og maður veit ekkert um ástæðu þess aðra en að blái liturinn á þessum berjum stafar yfirleitt af vaxhúð sem er utan á þannig að ef maður kemur við plöntuna koma svartir dökkir blettir undan. En svo virðast vera ákveðnir stofnar af aðalbláberjum sem ekki mynda þessa vaxhúð þannig að þau verða alveg svört."
Að sögn Harðar eru svört aðalbláber algildar plöntur sem annaðhvort eru aðskildir stofnar eða hafa arfgenga eiginleika. Svört aðalbláber eru útbreidd um Norðurland og Vestfirði og að sögn Harðar hafa þau tilhneigingu til að vera minni en þau bláu og eru "betri á bragðið", að hans mati.
tekið af mbl.is