Hagnaður af rekstri sveitarfélagins samkvæmt ársreikningi ársins 2017

Hagnaður af rekstri sveitarfélagins samkvæmt ársreikningi ársins 2017

Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2017 var samþykktur í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þann 17. apríl 2018.

Samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta er hagnaður af rekstri sem nemur tæpum 232 milljónum.  Er þetta um 161 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun. 

Tekjur samstæðunnar námu ríflega 2,28 milljarði og hafa aldrei verið hærri.  Skatttekjur námu ríflega 1,55 milljarði og þar af framlag Jöfnunarsjóðs tæplega 534 milljónum.  Þjónustutekjur voru um 725 milljónir.

Aðalsjóður var rekinn með 90 milljóna hagnaði.  Eignasjóður er með jákvæða rekstrarniðurstöðu sem nemur 52 milljónir.  A hlutinn sem samanstendur af aðalsjóði og eignasjóði var því samtals rekinn með hagnaði upp á 142 milljónir.

B-hluta fyrirtækin skiluðu 90 milljóna afgangi.  Samtals varð því hagnaður A og B hluta 232 milljónir eins og áður segir.

Rekstrargjöld samstæðunnar án afskrifta og fjármagnsliða námu 1.869 milljónum og voru ríflega 166 milljónum hærri en árið 2016.  Þar af hækka laun og launatengd gjöld um 132 milljónir á milli ára.  Helsta ástæða svo mikillar hækkunar launa og launatengdra gjalda er vegna samnings við Brú lífeyrissjóð og nam gjaldfærsla vegna þess um 68 milljónum á árinu 2017.

Samstæðan þ.e. er A og B hluti skiluðu framlegð upp á 18,1%.

Veltufé frá rekstri samstæðunnar sem er það reiðufé sem sveitarfélagið hefur til að standa skil á afborgunum skulda og til fjárfestinga var rúmlega 343 milljónir og handbært fé frá rekstri rúmlega 378 milljónir sem er hækkun um 66 milljónir frá fyrra ári.

Fjárfestingar ársins voru um 502 milljónir en á móti nam söluverð eigna um 102 milljónum.  Helstu fjárfestingar voru hafnarframvæmdir, endurbætur á sundlaug og gatnagerð.  Á árinu voru greidd upp langtímalán að upphæð 157 milljónir og um 16 milljónir voru greiddar vegna lífeyrisskuldbindinga.  Tekin voru ný langtímalán að upphæð 187 milljónir.  Skuldaviðmið sveitarfélagsins lækkar á milli ára og er nú rúmlega 50% og áætlanir gera ráð fyrir að það verði komið í um 40% árið 2021.

Eigið fé samstæðunnar hækkar um 300 milljónir er nú tæplega 2,5 milljarða og er eiginfjárhlutfall samstæðunnar nú komið í 63,3% og hækkar um hálft prósentustig á milli ára.