Haförn á sveimi

Haförn á sveimi

Ungur haförn hefur undanfarna daga verið á sveimi um Friðland Svarfdæla og nágrannabyggðir. Ýmsir hafa komið auga á hann skimandi eftir bráð sinni á lágu flugi yfir mýrlendinu eða hímandi á tjarnarbökkum. Það er harla sjaldgæft að hafernir sjást í Svarfaðardal. Þó kemur einn og einn ungur karlfugl hingað af og til.  Það tíðkast meðal ungra arna að skoða sig um í öðrum sýslum áður en þeir finna sér össu og helga sér óðal. Upp frá því fara þeir lítið út fyrir óðal sitt. Þessi örn er líklega orðinn fjögra ára gamall. Það má sjá á hvítu stélinu sem fram að þeim aldri er að mestu dökkleitt.

 
Halldór I Ásgeirsson tók þessa mynd af erninum utan og neðan við Tjörn