Gott gengi í Nótunni

Gott gengi í Nótunni

Uppskerutónleikar Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar voru haldnir í Berg þriðjudaginn 25. febrúar, en þeir eru undankeppni fyrir Nótuna, uppskeruhátíð tónlistarskóla um land allt. Þrjú atriði voru valin af dómurum til að halda áfram keppni í Hofi sem fram fór laugardaginn 13. mars. Það voru þau Helgi Halldórsson sem lék á gítar Etude nr. 7 eftir Matteo Carcassi, Verónika Jana Ólafsdóttir sem lék á fiðlu Menuet í G-dúr eftir Ludwig van Beethoven og síðan Styrmir Þeyr Traustason sem lék á píanó Fireworks úr myndinni Harry Potter and the Order of the Pheonix. Eftir keppnina í Bergi koma í ljós að Styrmir yrði erlendis og kom þá annar píanónemandi inn, Yrja Mai Hoang sem lék á píanó Let it go eftir Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez, úr myndinni Frozen.


Allir nemendur stóðu sig frábærlega vel í Hofi og voru tónlistarskólanum til mikils sóma. Það fór síðan svo að einn nemandi skólans, Helgi Halldórsson, var valinn áfram af dómurum í Hofi og komst alla leið í Hörpu. Helgi mætti síðan til leiks til Reykjavíkur á lokahátíð Nótunnar sem haldin var sunnudaginn 23. mars í Eldborgarsal Hörpu. Helgi flutti sitt atrið af mikilli yfirvegun og öryggi og var sér og sínum til mikils sóma.

Eftir þetta góða gengi er markmiðið Tónlistarskóla Dalvíkurbyggðar að gera enn betur á næsta ári, á Nótunni 2015.