Göngustígagerð í Friðlandi Svarfdæla

Ferðamálaráð Íslands veitti 200.000 króna styrk til göngustígagerðar og merkingar í Friðlandi Svarfdæla.

Hópur úr Sjálfboðaliðasamtökum um náttúruvernd, alls 10 manns, bauð fram aðstoð sína við að vinna þetta verkefni.

Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri Dalvíkurbyggðar, skipulagði þetta verkefni, sem var unnið helgina 14. -15.  ágúst sl.  Tók hann á móti hópnum á föstudagskvöldi  með kvöldverði og kynnti hann verkefnið fyrir hópnum.

Verkefnið var að endurbæta kafla af göngustíg fyrir neðan Tjörn í Svarfaðardal þar sem blautast er í mýrinni með því að bera sand og möl í hann en á einstaka stað voru notaðar flatar steinhellur til að auðvelda yfirferð vegna vatnsbleytu. Einnig átti að yfirfara stikur á gönguleiðunum,  mála og þétta.

Eftir móttökur á föstudagskvöldinu kom fólk sér fyrir og gekk til náða í Brekkuseli.

Snemma laugardagsmorgunn var snæddur morgunmatur  og síðan brunað á áfangastað þar sem Hjörleifur Hjartarson, sem á sæti í þriggja manna nefnd sem hefur umsjón með Friðlandi Svarfdæla,  tók á móti hópnum og hélt kynningu um Friðlandið.

Þá var skipt í hópa og allir gengu til sinna verka.

Blíðskaparveður var allan tímann,  sól og  yfir 20 stiga hiti. Verkið gekk mjög vel, unnið var fram eftir degi, síðan farið í sund og þá í skemmtisiglingu á kanoum frá Hánefsstaðareit niður ána að Árgerði. Það var mikil upplifun fyrir alla.

Um kvöldmat var skipt í hópa til matargerðar og þar sem allir voru orðnir mjög svangir eftir erfiðan dag og mikla ævintýraferð var tekið hraustlega til matar síns með grilluðu lambakjöti og öllu tilheyrandi.

Á sunnudagsmorgunn var byrjað snemma að vinna og keppst við að klára verkið. Það tókst og klukkan að ganga tvö var vinnan flautuð af.  Þá var farið í Brekkusel og afgangar frá grillinu kvöldinu áður borðaðir.

Eftir það var safnaðst saman við Byggðasafnið þar sem Svanhildur Árnadóttir, forseti bæjarstjórnar, tók á móti hópnum og hélt nokkur þakkarorð, færði síðan öllum smá gjöf frá Dalvíkurbyggð.   Var ekki annað að sjá en hópurinn kunni vel að meta þennan þakkarvott.

Eftir þetta var Byggðasafnið skoðað og svo brunuðu gestirnir hver til síns heima.

Nokkrir úr Sjálfboðaliðasamtökunum höfðu á orði hversu góðar móttökur hópurinn fékk sem og að  skipulagning í tengslum við vinnuna hefði verið til fyrirmyndar. Fór hópurinn héðan alsæll með góðar minningar frá Dalvíkurbyggð.

Garðyrkjustjóri segir hópinn hafa unnið mjög vel, allt hörkuduglegt fólk og vant svona vinnu.

Garðyrkjustjóri  vill einnig vekja athygli á gönguleiðunum um Friðlandið, nú sé auðvelt að komast þar um. Leiðirnar er tvær, minni hringur tekur um eina klukkustund en sá stærri um tvo tíma að ganga. Við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal er skilti sem sýnir gönguleiðirnar, þaðan sem jafnframt skal hefja göngu og fylgja síðan merktum stikum.

Garðyrkjustjóri bendir einnig á að ekki sé æskilegt að fara þessa gönguleið á hestum þar sem hestar þjappa mölinni sem verið var að setja á svæðið þar sem bleytan var mest og skemmi göngustígana.