Gönguleiðakort á Tröllaskaga

Hólaskóli hefur gefið út gönguleiðakort sem heitir "Gönguleiðir á Tröllaskaga, Heljardalsheiði - Hólamannavegur - Hjaltadalsheiði." Kortið er í mælikvarðanum 1:50.000 og nær yfir miðjan Tröllaskaga. Útgáfa þessa korts þykir renna styrkari stoðum undir möguleika til útivistar á Tröllaskaga.

Tröllaskagin er svæði sem nýtur vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði og mun kortið nýtast áhugafólki um útivist, hvort sem ferðast er gangandi eða ríðandi um svæðið. Margar leiðir sem merktar eru inná kortið eru þekktar reiðleiðir. Alls eru 19 leiðir merktar inná kortið og meðal þeirra eru gamlar merktar þjóðleiðir til og frá Hólum og má þar nefna Heljardalsheiði, Hjaltadalsheiði, Hólamannaveg, Svarfdælaleið og Tungnahryggsleið.

Á bakhlið kortsins er síðan að finna greinagóðar lýsingar á gönguleiðunum, auk ljósmynda. Margvísleg þjónusta og athyglisverðir staðir eru einnig merktir inná kortið.  Kortið mun meðal annars verða til sölu í Sundlaug Dalvíkur og víðs vegar um land, en verðið er 1450 kr.

Í tilefni af útgáfu kortsins var bæjarstjórnum og sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem liggja að Tröllaskaga boðið að koma til Hóla í Hjaltadal og vera viðstadda formlega útgáfu kortsins og sótti bæjarstjóri fundinn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar. Í gegnum verkefnið Tröllaskagastofa, sem stýrt er frá Hólum, hefur verið haft frumkvæði að því að gefa út annað göngukort sem kæmi í beinu framhaldi af hinu. Myndu sveitarfélögin Dalvíkurbyggð, Ólafsfjörður, Siglufjörður og Skagafjörður ásamt Hólaskóla fjármagna gerð kortsins sem áætlað er að komi út í kringum páskana 2006.