Friðarhlaupið plantar Friðartré í Fólkvanginum

Friðarhlaupið plantar Friðartré í Fólkvanginum

Í dag komu meðlimir Friðarhlaupsins við í Dalvíkurbyggð, en dagana 20.júní - 12. júlí er hlaupið Friðarhlaup um allt Ísland. Þá ber hópur alþjóðlegra hlaupara logandi Friðarkyndil á milli byggða til að gefa öllum  landmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði sem  hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis.

Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnis á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðahlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Hlaupið er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931-2007) sem m.a. opnaði íslenska Friðarhlaupið árið 1989.

Ísland hefur tekið þátt í Friðarhlaupinu frá upphafi þess árið 1987 og í ár er hlaupið í 20. sinn.  Á þessum tímamótum er ætlunin að hafa hlaupið veglegra en nokkru sinni fyrr og heimsækja öll 75 sveitarfélögin á Íslandi.

Verkefnið "leggjum rækti við frið " fer fram samhliða Friðarhlaupinu en það gengur út á að sveitarfélög gróðursetji tré sem er tileiknað friði. Friðartrén minna okkur á að rétt eins og við þurfum að hlúa að og leggja rækt við trjáplöntuna svo hún megi vaxa og dafna, þurfum við að hlúa að og leggja rækt við friðinn í sjálfum okkur og samfélaginu, svo hann megi vasa og dafna.

Eins og áður sagði komu þrír hlauparar, allt konur, ásamt fylgdarfólki, frá Friðarhlaupinu til Dalvíkur í dag. Þær báru með sér logandi Friðarkyndil sem farið hefur út um allan heim og því hefur hann farið í gegnum hendur margra. Þær hlupu í gegnum bæinn, upp í skógreitinn í Fólkvanginu, þar sem þær gróðursettu tré og settu upp minnismerki hlaupsins með aðstoð starfsmanna vinnuskólans. Að því loknu sungu þær lag um frið sem er eftir Sri Chinmoy sem hlaupið er kennt við. Þær voru mjög ánægðar með staðsetningu Friðartrésins og minnismerkisins og töluðum um hversu mikil friðsæld væri í okkar litla skógreit. Frá Dalvík lá svo leið þeirra yfir í Fjallabyggð.

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.fridarhlaup.is og www.peacerun.org