Fréttabréf umhverfis- og tæknisviðs 2016


Hreinsunarátak
Árviss vorhreinsun í Dalvíkurbyggð hefst föstudaginn 20. til 23. maí en þá taka allir höndum saman, íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins, og hreinsa og fegra sveitarfélagið. Íbúar eru hvattir til að hreinsa lóðir sínar. Starfsmenn sveitarfélagsins verða svo á ferðinni og fjarlægja garðúrgang sem fólk hefur sett utan við lóðarmörk sín. Einnig er bent á að hægt er að fara með garðaúrgang í Hrísahöfða við Dalvík og í námu við Brúarhvammsreit á Árskógssandi. Almennt sorp sem fólk safnar saman á opnum svæðum á að fara í poka og setja á áberandi stað þar sem starfsmenn sveitarfélagsins fjarlægja það síðan. 

Garðaúrgangur:
- Garðaúrgang skal setja út við lóðamörk í pokum, greinaafklippur (langar greinar) skal binda í knippi.
- Óheimilt er að flytja lausan jarðveg út fyrir lóðamörk og verður slíkt fjarlægt á kostnað lóðarhafa.
- Ekki verður fjarlægt rusl af byggingarlóðum.
- Íbúar þurfa sjálfir að koma spilliefnum í endurvinnslustöð, enn fremur timbri, málmum og öðru rusli.

Ekki er mögulegt að fjarlægja heil tré eða trjástofna.

Gámar:
Gámaeigendur eru beðnir um að fjarlægja alla lausamuni ofan af gámum og það sem liggur í kringum þá. Að öðrum kosti verða þeir fjarlægðir á kostnað eigenda.

Að gefnu tilefni skal bent á að samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber öllum þeim sem hafa gáma, hjólhýsi eða aðra stóra lausafjármuni að óska eftir stöðuleyfi. Þeir sem ekki hafa sent inn slíka umsókn er veittur frestur til 1. júní 2016, en að þeim fresti liðnum verða nauðsynlegar ráðstafanir gerðar svo hægt sé að skrá og eða fjarlægja hluti á kostnað eigenda.

Umsókn um stöðuleyfi skal vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna.

Járn:
Íbúar í dreifbýli geta komið brotajárni fyrir nálægt þjóðvegi þessa daga þaðan sem það verður fjarlægt. Almennt á þó brotajárn að fara í járnagáma á gámasvæðinu.

Bifreiðar, bílflök og aðrir lausafjármunir:
Á meðan á hreinsunarátaki stendur mun Heilbrigðiseftirlitið líma tilkynningar um að fjarlægja númerslausar bifreiðar og lausafjármuni þar sem það á við. Ef ekki verður brugðist við verða þeir fjarlægðir á kostnað eigenda.
Sorpmál
Opnunartími gámasvæðisins er eftirfarandi:
• Mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 15:00 - 18:00
• Laugardaga frá kl. 11:00 - 14:00
• Lokað er inn á svæðið á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum en með stækkun á svæðinu er boðið upp á þá nýbreytni að koma með smærri hluti utan hefðbundins opnunartíma í gegnum gönguhlið.

Hægt er að nálgast sorphirðudagatal og flokkunarleiðbeiningar á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is .

Hunda og kattahald
Eigendur hunda og katta eru áminntir um að lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýli. Einnig er ítrekað að eigendur þeirra hreinsi upp eftir dýrin þegar þau ganga örna sinna. Minnt er á að allir hundar og kettir eiga að vera skráðir, tekið er á móti skráningum á skrifstofu sveitafélagsins.

Garðlönd
Boðið verður upp á leigu á garðlöndum í Ytra-Holti í Svarfaðardal og skulu áhugasamir hafa samband við umhverfisstjóra. Landið verður tætt og tilbúið til notkunar ef næg þátttaka fæst.

Böggvisstaðarskáli
Umsjón með leigu á geymsluplássi í Böggvisstaðaskála er í höndum umhverfisstjóra en leigusamningar eru gerðir á umhverfis- og tæknisviði við hvern aðila. Gert er ráð fyrir að geymslupláss séu leigð út að lámarki til eins árs í senn. Gjaldskrá má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is.

Eigendum lausafjármuna í kringum skálann er bent á að fjarlægja þá fyrir 1. júní, að öðrum kosti verða þeir fjarlægðir á kostnað eigenda.

Framkvæmdir sumarsins
Gatnagerð: Ræsi yfir Brimnesá norðan Böggvisbrautar ásamt vegtengingu, nýr stígur sunnan Krílakots sem tengir nýbygginguna við göngustíginn milli Böggvisbrautar og Kirkjuvegar, götufrágangur við fyrirhugað nýtt bílastæði norðan Dalvíkurkirkju, frágangur og malbik á austurhlið Svarfaðarbrautar sunnan Mímisvegar, endurnýjun og lagfæringar á gangstéttum og kantsteinum.

Aðrar framkvæmdir: 468,3 m2 viðbygging við Krílakot verður tekin í notkun í ágúst, endurbætur á kjallara Ungó ásamt því að húsið verður málað að utan, ný leiktæki við Dalvíkurskóla og á leiksvæðið á Árskógssandi ásamt endurnýjun á neti í kringum körfuboltavöll við Dalvíkurskóla, nýtt þak á elsta hluta Tónlistaskóla Dalvíkur. Að auki hefðbundið viðhald eignasjóðs á eignum í eigu sveitarfélagsins.


Umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar