Febrúar - TENGJA

Febrúar Tengja er nokkuð seint á ferðinni að þessu sinni og er beðist velvirðingar á því.

Janúar leið hratt á Húsabakka og nú er komið að annaskiptum með prófadögum, vetrarfríi og ýmsu öðru sem við getum látið okkur hlakka til. Allt lítur út fyrir að febrúar verði nokkuð annasamur á Húsabakka. Samræmdu prófin voru lögð fyrir 4. og 7. bekk fimmtudaginn 3.  og föstudaginn 4. febrúar og gekk það eins og við var að búast, afar vel.

Námsmat:

Námsmat miðannar er dagana 3. - 8. febrúar. Stundaskrár nemenda raskast ekki þrátt fyrir námsmat, prófin eru lögð fyrir nemendur í tímum innan stundaskrár. Ath. við höfum haft það fyrir sið að hafa þriðjudagana og miðvikudagana stutta á námsmatsdögum en það þurfum við ekki að gera í þetta sinn. Próftöflur og bréf um fyrirkomulag prófa fengu nemendur hjá umsjónarkennurum í síðustu viku.

Söngur á sal:

Söngur á sal verður mánudaginn  7. febrúar þá æfum við öskudagslögin og mánudaginn 21. febrúar syngjum við fleiri febrúar-lög. Söngur á sal fer fram í litla salnum á Rimum kl. 11:25  til 11:55. Allir eru velkomnir.

Öskudagur 9. febrúar:

Öskudagur er skóladagur í Húsabakkaskóla. Öskudags - Tengja með skipulagi dagsins fylgir með febrúar - Tengju.

Starfsdagur kennara - frí hjá nemendum:

Fimmtudaginn 10. febrúar er starfsdagur kennara og þá er frí hjá nemendum. Þennan dag þurfa þeir nemendur Tónlistarskólans sem eru í tónlistartímum á fimmtudögum að hitta tónlistarkennara sína í húsnæði Tónlistarskólans á Dalvík.

Vetrarfrí - 11. febrúar:

Föstudaginn 11. febrúar er vetrarfrí hjá nemendum og starfsfólki.

Foreldradagur:

Á foreldradeginum mánudaginn 14. febrúar verða kennarar til viðtals frá kl. 8:00-13:30. Foreldrar geta komið hvenær sem þeir vilja á þessum tíma. Ef einhver einn tími hentar betur en annar geta foreldrar haft samband við umsjónarkennara og pantað þann tíma sem hentar best.

Skautadagur:

Þriðjudaginn 15. febrúar fara Húsbekkingar í Skautahöllina á Akureyri. Lagt verður af stað með rútu strax eftir morgunmat og foreldrar geta reiknað með börnum sínum heim milli kl. 13:30 og 14:00. Hjá eldri nemendum verður þessi dagur þá stuttur dagur. Leikskólabörnin verða eftir á Húsabakka. Allir þurfa að borga 250.- kr. aðgangseyri í höllina og þeir sem þurfa að leigja sér skauta greiða 300.- kr. til viðbótar. Nemendur skila peningunum til umsjónarkennara í fyrsta tíma á skautadeginum. Skólinn greiðir rútukostnaðinn.

Kórabúðir Góðra hálsa:

Barnakórinn Góðir hálsar halda í kórabúðir eftir að skólatíma lýkur föstudaginn 18. febrúar. Þá er ferðinni heitið að Möðruvöllum í Skíðadal. Fram að kvöldmat verður kóræfing með hléum og útileikjum. Síðan verður sameiginlegur kvöldverður, kvöldvaka og gisting að Möðruvöllum. Kóra-Tengja með nánari upplýsingum fer heim með kórfélögum á foreldradeginum 15. febrúar.

Kvöldvaka og gisting:

Kvöldvaka og gisting í febrúar eru miðvikudaginn 23. febrúar. Gistingin færist að þessu sinni frá þriðjudegi yfir á miðvikudag vegna námskeiðs í ullarþæfingu þann 22. febrúar. Okkur vantar foreldra til að vera á næturvakt á báðum vistum þessa nótt. Þeir sem geta tekið þessa vakt eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Ingileif fyrir föstudaginn 18. febrúar.

Upplestrarhátíð Húsabakkaskóla:

Upplestrarhátíð 7. bekkjar Húsabakkaskóla er föstudaginn 25. febrúar kl. 11:00-12:00 í litla salnum á Rimum. Á upplestrarhátíðinni verða valdir fulltrúar Húsabakkaskóla í Stóru upplestrarkepnninni sem fram fer í Ólafsfjarðarkirkju í mars. Foreldrar og aðrir velunnarar Húsabakkaskóla eru hvattir til þess að koma á hátíðina til þess að hlusta á upplestur, söng Góðra hálsa og tónlistaratriði frá nemendum.

Árshátíðin 2004 á DVD diski:

Við eigum enn nokkur eintök af DVD diskum með síðustu árshátíð skólans til sölu. Hvert eintak kostar kr. 1.500 og rennur ágóðinn af sölunni í ferðasjóð nemenda.

Skólahjúkrunin:

Lilja Vilhjálmsdóttir skólahjúkrunarfræðingur sem hefur verið til viðtals hjá okkur alla miðvikudaga í vetur kl. 10:30-11:30 er í veikindaleyfi í febrúar. Ef foreldrar og nemendur þurfa á þjónustu skólahjúkrunarfræðings að halda er þeim bent á að hafa samband við heilsugæslustöðina á Dalvík í síma 466-1500.

Fullorðinsfræðslan:

Ég vil minna á að enn eru laus pláss á seinna námskeiðið í ullarþæfingu sem hefst þriðjudaginn 22. febrúar.

 Fyrsti fyrirlesturinn um Hallgrím Pétursson og Passíusálmana var haldinn sl. fimmtudag og sá næsti verður haldinn fimmtudaginn 10. febrúar kl. 20:30. Sr. Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur Eyjafjarðarprófastsdæmis flytur þann fyrirlestur. Þriðji og síðasti fyrirlesturinn verður fimmtudaginn 17. febrúar og hann heldur rithöfundurinn Steinunn Jóhannsdóttir. Enn er hægt að skrá sig á þá fyrirlestra. Skráningin er ekki bindandi.

Með kveðju frá Húsabakka,

Ingileif