Desember

Desember

Desember er búinn að vera annasamur mánuður. Þrátt fyrir það höfum við náð að eiga notalega daga líka sem er dásamlegt. Meðal þess sem hefur verið um að vera hjá okkur er Dalbæjarheimsókn beggja árganga. Eldri börnin fóru með Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum og sungu nokkur lög en þau yngri voru einungis með söngdagskrá. Báðar heimsóknirnar gengu eins og í sögu og voru börnin klöppuð upp í báðum tilvikum. Báðir árgangarnir fengu sér svo göngutúr um bæinn eftir Dalbæ og heimsóttu nokkur fyrirtæki þar sem þau buðu upp á fallegan jólasöng. Við vonum því að börnunum okkar hafi tekist að ylja mörgum um hjartarætur við þetta.

Jólaballið okkar var svo haldið þann 15. desember. Að þessu sinni héldum við það í Bergi sem gekk ljómandi vel. Elstu börnin okkar fóru með Jólasveinavísurnar og svo sungu öll börnin saman tvö lög. Við fengum jólasvein í heimsókn eins og vanalega sem dansaði og söng með okkur nokkur lög og færði börnunum svo gjafir. Eftir ballið buðum við foreldrum að þyggja heitt súkkulaði með rjóma og smákökur sem börnin höfðu bakað, á Kátakoti.

Síðasti íþróttatíminn fyrir jólin var sameignlegur hjá báðum árgöngum og var hann miðvikudaginn 14. desember. Þá fóru börnin í Tarzan-leik (Jakahlaup) og fengu 10. bekkingar að vera með einn leik. Þetta var mjög gaman og sýndist okkur 10. bekkingarnir ekki skemmta sér neitt minna.

Á þriðjudaginn í þessari viku var elstu börnunum okkar boðið á litlu jólin hjá yngsta stigi Dalvíkurskóla. Þar horfðu þau m.a. á atriði frá 1. bekk, fóru með Jólasveinavísurnar sem þau kunna orðið svo vel og horfðu á helgileikinn hjá 6. bekk. Eftir þetta var dansað kringum jólatréð. Á meðan fór yngri hópurinn í heimsókn til Lindu þar sem horft var á jólateiknimynd, afskaplega notaleg stund og gaman að brjóta upp einu sinni og gera eitthvað annað en vanalega.

Í gær bauð Sr. Magnús okkur í heimsókn í kirkjuna þar sem við sungum saman nokkur lög og töluðum lítillega um jólin og hvers vegna þau eru haldin hátíðleg.

Að lokum langar okkur til að óska ykkur gleðilegra jóla og vonum að þið hafið það sem allra best yfir hátíðina og njótið samvista með fjölskyldu og vinum. Hlökkum til að sjá ykkur aftur á nýju ári.

Jólakveðjur frá starfsfólki Kátakots.