Byggingarnefnd íþróttahúss á Dalvík

Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur skipað byggingarnefnd íþróttahúss. Skipan nefndarinnar er í samræmi við þá  yfirlýstu skoðun að bygging íþróttahúss á Dalvík sé forgangsverkefni. Í nefndina voru kosin Guðmundur St. Jónsson sem er formaður, Haukur Snorrason, varaformaður, Helena Frímannsdóttir, Garðar Níelsson og Þórir Áskelsson. Varamenn þeirra eru: Jakob Atlason, Guðbjörn Gíslason, Elmar Sindri Eiríksson, Harpa Rut Heimisdóttir og Tryggvi Kristbjörn Guðmundsson.

Byggingarnefndin tekur þegar til starfa og eru verkefni hennar m.a. þessi: Að fara yfir þær þarfir sem liggja til grundvallar byggingu íþróttahúss og hafa samráð við þá aðila sem málið varðar, s.s. skóla og íþróttafélög; að skoða þá kosti sem fyrir hendi eru varðandi staðsetningu hússins og fara þá m.a. yfir og meta þá hönnunarvinnu sem fyrir liggur; að skoða þær fjármögnunarleiðir sem kunna að vera fyrir hendi vegna byggingar hússins; að láta hanna og teikna húsið og umhverfi þess og sjá um útboð og samninga við verktaka vegna framkvæmdanna

Í vinnu sinni hefur byggingarnefndin eftir atvikum samráð við bæjarráð og íþrótta- æskulýðs- og menningarráð. Við vinnu sína nýtur byggingarnefnd sérfræðiaðstoðar tæknideildar Dalvíkurbyggðar