Byggðasafnið Hvoll opnar með pompi og prakt

Byggðasafnið Hvoll opnar með pompi og prakt

Síðasta laugardag, þann 28. maí, var byggðasafnið Hvoll formlega opnað eftir vetrarlokun. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson opnaði nýja Kristjánsstofu og einnig afhjúpaði Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, eftirgerð af Upsakristi sem fenginn hefur verið að láni frá Þjóðminjasafninu á sýninguna Mannlíf og munir í Dalvíkurbyggð, sem einnig var opnuð við þetta tækifæri.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á safninu og meðal annars hefur Kristjánsstofa verið endurnýjuð og sýningarmunum fjölgað. Að sögn Írisar Ólafar, forstöðumanns Hvolls, er hugsunin sú að persóna Kristjáns Eldjárns fái hér meira vægi í stað hinnar formlegu uppstillingar á forsetanum og embættismanninum. Sýningin Mannlíf og munir í Dalvíkurbyggð hefur nú verið sett upp á annarri hæð safnsins, en þar gefur að líta mikið af þeim munum sem fyrir voru en  hins vegar eru færri eintök sömu gerðar. Með því móti fær hver munur notið sín að sögn Írisar og sýningin verður markvissari og væntanlega sterkari upplifun fyrir þann sem skoðar hana. Valdir munir eru útskýrðir sérstaklega, notagildi og því um líkt, en þeim munum fjölgar síðan í framtíðinni og á endanum verða allir munir útskýrðir.

Tæplega 200 gestir komu á opnunina og skoðuð nýju sýninginum sem og þær breytingar sem gerðar hafa verið á safninu og tókst þessi dagur í alla staði vel. Eftir að hafa skoðað safnið var gestum síðan boðið uppá kaffi og kleinur að þjóðlegum sið.