Byggðakvóti í Dalvíkurbyggð

Samkvæmt upplýsingum frá Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti koma alls 206 þorskígildistonn af byggðakvóta í hlut Dalvíkurbyggðar; 135 á Árskógssand, 56 á Dalvík og 15 á Hauganes. Samkvæmt úthlutunarreglum er fiskiskipum skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þess sem þau fá úthlutað.


Sveitarfélagið hefur frest til 21. júlí til að gera tillögur til ráðuneytisins um sérstök skilyrði varðandi úthlutun á byggðakvóta sveitarfélagsins. Í Dalvíkurbyggð hefur sú regla gilt að aflanum sé landað til vinnslu innan sveitarfélagsins.


Eftir 21. júlí mun ráðuneytið fela Fiskistofu að auglýsa eftir umsóknum útgerða um byggðakvóta og úthlutar síðan samkvæmt þeim almennu úthlutunarreglum sem er að finna í lögum og reglugerðum.