Byggðakvóti fiskveiðiársins 2010/2011

Sjávarútvegsráðuneytið hefur fjallað um umsókn Dalvíkurbyggðar um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2010/2011. Samkvæmt bréfi ráðuneytisins dags. 22. des. sl. er niðurstaðan þessi:

Hauganes: 16 þorskígildistonn
Árskógssandur: 193 þorskígildistonn
Enginn byggðakvóti er til Dalvíkur þetta fiskveiðiár.

Ráðuneytið vekur sérstaka athygli á að samkvæmt úthlutunarreglum er fiskiskipum skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlags afla sem nemur í þorskígildum talið tvöföldu magni þess aflamarks í byggðakvóta sem þau fá úthlutað.

Ef sveitarstjórn vill að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvótans, umfram þau almennu skilyrði sem birtast í rg. 999/2010, þurfa tillögur þess efnis að berast ráðuneytinu eigi síðar en 18. janúar og mun ráðuneytið síðan fela Fiskistofu að auglýsa eftir umsóknum útgerða um byggðakvóta.

Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar óskað eftir því að löndunarskylda eigi við um sveitarfélagið svo byggðakvóti nýtist til vinnslu í Dalvíkurbyggð og hefur það verið svo, enda leggur ráðuneytið áherslu á að byggðakvóta sé landað innan viðkomandi byggðarlags/sveitarfélags og beinir því til sveitarstjórna að horft sé fyrst og fremst til verðmætisaukningar og atvinnusköpunar.