Bæjarstjórn verður sveitarstjórn og bæjarstjóri verður sveitarstjóri! Ný samþykkt um stjórn Dalvíkurbyggðar

Bæjarstjórn verður sveitarstjórn og bæjarstjóri verður sveitarstjóri! Ný samþykkt um stjórn Dalvíkur…

Á grundvelli nýrra sveitarstjónarlaga hefur Dalvíkurbyggð nú sett sér nýjar samþykktir. Samþykktir eru rammi um stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þar kemur t.d. fram hve margir fulltrúar séu í sveitarstjórn, hvaða nefndir séu starfandi og hve oft haldnir eru bæjarstjórnarfundir.

Þau nýmæli sem íbúar sveitarfélagsins munu e.t.v. helst verða varir við eru:


1. Heiti sveitarstjórnar. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum kallast yfirstjórn hvers sveitarfélags sveitarstjórn. Það má þó nota heitin hreppsnefnd eða bæjarstjórn. Sama á við um byggðaráð sem á sama hátt má nefna hreppsráð eða bæjarráð. Niðurstaða bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar var að hætta að nota heitin bæjarstjórn og bæjarráð og vera í stað þess með sveitarstjórn og byggðaráð. Það er þannig staðfest í nýjum samþykktum Dalvíkurbyggðar. Sveitarstjóri, forseti sveitarstjórnar og formaður byggðaráðs eru ný heiti embættismanna sveitarstjórnar. Við höfum lengi talað jöfnum höndum um bæjarstjórn og sveitarstjórn. Frá 1. mars 2013 á heitið sveitarstjórn að taka yfir. Bæjarskrifstofurnar kallast þá skrifstofur sveitarfélagsins og bæjarstjórnarfundir verða fundir sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar.


2. Í X kafla nýju sveitarstjórnarlaganna er fjallað um samráð við íbúa. Þar eru ákvæði um borgarafundi, íbúaþing og íbúakosningar. Þessi ákvæði eru skýrð í Lýðræðisstefnu Dalvíkurbyggðar og vitnað til þess í samþykktunum. Lýðræðisstefnuna getið þið fundið á heimasíðu Dalvíkurbyggðar www.dalvikurbyggd.is  . Samkvæmt henni geta 10% íbúa kallað eftir íbúafundi og 25% íbúa geta kallað eftir íbúakosningum. Þó ekki væri að öllu leyti staðið að undirskriftasöfnun vegna íbúakosninga sl. haust í samræmi við lögin studdist þó sveitarstjórn við þau að mestu þegar kom að framkvæmd hennar. Við kölluðum það lýðræðisæfingu. Nú er á Alþingi verið að ganga frá lögum og reglum um rafrænar kosningar og hvernig á að safna undirskriftum vegna óska íbúa um fundi eða kosningar.


3. Stjórnkerfi sveitarfélagsins breytist þannig að við bætist veitu- og hafnasvið og hitaveita, fráveita og vatnsveita auk hafna í Dalvíkurbyggð falla þar undir, en hafnasjóður hefur ekki heyrt undir sérstakt svið síðan hann var klofinn frá Hafnasamlagi Eyjafjarðar. Nú er hann settur undir sömu stjórnsýslu og annar rekstur sveitarfélagsins. Þá er ákvæði þess efnis í nýjum sveitarstjórnarlögum að við nefndakjör skuli horft til sk. 40% reglu sem þýðir að bæði kynin eiga að hafa sem jafnastan hlut í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins.


Auk þessa eru síðan fjölmörg atriði sem munu hafa áhrif á störf sveitarstjórnar. Þau lúta ekki síst að fjármálum, en sá rammi sem nú hefur verið settur um þau er mun stífari en áður var. Í fréttum hefur m.a. verið fjallað um fjármálareglur og svokallað skuldaþak sem segir að skuldir sveitarfélags megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Dalvíkurbyggð er langt undir þessu þaki og er, eins og fram kom nú síðast í greiningu Íslandsbanka á sveitarfélögum, í hópi þeirra sveitarfélaga sem eru bæði talin með lágar skuldir og viðráðanlegan rekstur.


Sveitarstjórn, sem og ráð og nefndir, standa reglulega fyrir íbúafundum, bæði til að kynna mál á döfinni og til að kalla eftir skoðunum ykkar, íbúa Dalvíkurbyggðar. Ég hvet ykkur til að mæta á þessa fundi og taka þannig þátt í að móta sveitarfélagið okkar, Dalvíkurbyggð.


Svanfríður Jónasdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð

Pistlar úr Dalvíkurbyggð, sjá alla pistla