Ályktun um björgunarstörf

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 16. desember var eftirfaranda ályktun samþykkt:

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar skorar á ríkisvaldið og Slysavarnafélagið Landsbjörg að taka björgunarmál á Íslandi til gagngerrar endurskoðunar og endurskipulagningar.

Fjöldi ferðamanna til Íslands eykst ár frá ári og áhugi Íslendinga á fjölbreyttri fjallamennsku hefur stór aukist á undanförnum árum. Þessar aðstæður hafa aukið álag björgunarsveitafólks sem oft á tíðum þarf að leggja sig í mikla hættu við björgunarstörf. Kröfur um kostnaðarsama menntun björgunarfólks og kröfur um bættan tækjabúnað hafa einnig aukist. Í mörgum þeirra landa sem við Íslendingar berum okkur saman við eru það herflokkar og heimavarnalið sem sinna björgunarstörfum. Björgunarsveitir á Íslandi eru byggðar upp með sjálfboðastarfi og njóta velvilja almennings og fyrirtækja en fleira þarf að koma til.

Náttúruperlur eins og fjöllin í Dalvíkurbyggð hafa mikið aðdráttarafl, sem er jákvætt, en hið neikvæða er að slysatíðni eykst í takt við aukinn fjölda fólks sem stundar fjallamennsku. Alvarleg slys hafa orðið á Tröllaskaga á undanförnum misserum og í ljós hefur komið í því sambandi að verkferlar við björgunarstörf hafa bæði verið óskýrir og þunglamalegir vegna flókinna reglna og tryggingamála.
Mikil umræða hefur verið um að tryggja fjármagn til verndunar ferðamannastaða vegna aukins ágangs á slíka staði. Að sama skapi þarf að huga að því að björgunarsveitum sé tryggt öruggt rekstrarumhverfi til að rækja hlutverk sitt. Tryggja þarf björgunarsveitum nægilegt fjármagn og að reglur og verkferlar séu skýrir.

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar skorar á ríkisvaldið og Slysavarnafélagið Landsbjörg að taka nú höndum saman um breytingar á umhverfi björgunarmála á Íslandi sem miða að því að stórbæta möguleika björgunarsveita til að sinna sínu mikilvæga hlutverki við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi.