Æft stíft fyrir frumsýningu

Það er mikið um að vera í Ungó þessa dagana. Stífar æfingar eru á hverjum degi á Sölku Völku eftir sögu Halldórs Laxness, í leikgerð og leikstjórn Ingu Bjarnasonar. Stefnt er að frumsýningu á þessu verki föstudaginn 9. nóvember næstkomandi. Að sögn Arnars Símonarsonar, formanns Leikfélags Dalvíkur, gengur allt að óskum, nú er verið að tengja saman senur, klára að vinna búninga, setja upp ljós og ganga frá sviði. Hann segir að það sé gaman að sjá alla þessa fjölmörgu aðila sem koma að sýningunni vinna saman sem eina heild og það sé virkilega góður andi í hópnum almennt, allir leggist nú á árarnar svo vel megi til takast.

Alls verða 12 sýningar á þessu leikverki verða auglýstar innan tíðar og miðapantanir eru þegar byrjaðar að streyma inn. Arnar getur þess að uppselt er orðið á frumsýningu og þá eru örfáir miðar lausir á 2. og 4. sýningu. Stjórn LD sendi 13 skólum á Eyjafjarðarsvæðinu boð að koma og sjá þessa sýningu í tengslum við íslenskukennslu í efri bekkjum unglingadeilda. Þessu boði hefur víða verið vel tekið.

Miðapantanir eru í síma LD :  868 9706 milli kl. 18.00-20.00 alla daga og það er Borghildur Rúnarsdóttir sem sér um miðasölu. Almennt miðaverð er kr. 2.400.- en ellilífeyrisþegar greiða kr. 1.900.- Ef pantað er 10 miða eða fleiri á sýninguna er miðaverð einnig 1.900.-  Arnar hvetur sem flesta að taka nú við sér og koma í leikhúsið að sjá þessa viðamiklu og skemmtilegu uppfærslu.