17. júní í Dalvíkurbyggð - hátíðarræða

Þjóðahátíðardagurinn 17. júní fór fram með pompi og prakt í Dalvíkurbyggð enda lék veðrið við hvern sinn fingur. Ýmislegt var á döfunni fyrir unga jafnt sem aldna, frjálsíþróttamót, vatnsrennibrauti, hestaferðir, hátíðarkaffi og fl. Hefð er fyrir því að hátíðarstund sé haldin þennan dag og fór hún að þessu sinni fram við Berg menningarhús. Flutt voru tónlistaatriði, fjallkonan, Andrea Ragúels Víðisdóttir las ljóðið Fjallkonan eftir Þórarinn Eldjárn og það rigndi karamellum ásamt því sem flutt var hátíðarræða. Að þessu sinni var það Klemenz Bjarki Gunnarsson sem flutti ræðuna og er hún hér fyrir neðan í heild sinni.

Hátíðarræða 17. júní, Klemenz Bjarki Gunnarsson.

Kæru hátíðargestir – gleðilegan þjóðhátíðardag.
Ég var í skrúðgöngu leikskólanna með dætrum mínum í gær og þar sungu börnin af innlifun: Hæ, hó, jibbí jei og jibbí jei, það er kominn 17. júní. Í dag er hann vissulega kominn og margir segja í hjarta sínu hæ, hó jibbí jei, því það er oft gaman á 17. júní og hér á Dalvík er boðið upp á dagskrá sem sum barna minna hafa horft til af eftirvæntingu. En ég fór að velta fyrir mér, hvað er þjóðhátíðardagur, er nóg að það sé jibbí jei og jibbí jei? Auðvitað eigum við að gleðjast, en vita allir yfir hverju við erum að gleðjast. Faðir minn sem vissulega man tímana tvenna, hefur t.d. oft rifjað upp 17. júní árið 1944 þegar Ísland var lýðveldi. Hann var ekki staddur á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum en hér í Svarfaðardal var haldin hátíð við Sundskálann. Fánar voru dregnir að húni og á lauginni flaut líkan af Íslandi, m.a. þakið lyngi. Pabbi var á níunda ári og barnshugurinn greypti þessa mynd í sig því þegar hann rifjar þetta upp, þá sést barnið sem einu sinni var lifna í augum hans. Pabbi man sem sagt að einu sinni var Ísland ekki lýðveldi, þjóð á meðal þjóða eins og ráðamenn bregða stundum fyrir sig í hátíðarræðum. Hann hafði það t.d. á orði að það væri ekki tekið fram í auglýsingu af hátíðahöldum dagsins, að í dag fögnum við 70 ára afmæli lýðveldisins. Þetta er mikilvægur dagur í sögu þjóðarinnar, við viljum fá að taka ákvarðanir okkar sjálf, hvort sem við tölum út frá okkur sem einstaklingi eða þjóð. Á erfiðum tímum, sem og þeim góðu, þá viljum við geta barið okkur á brjóst og talað um okkur Íslendinga sem geta þetta og geta hitt. Þá er komið að því sem mig langar til að tala um hér í dag, en ykkur finnst ég kannski hafa farið út um víðan völl. Það er þjóðerniskennd, hvað gerir þjóð að þjóð.


Þjóðerniskennd er hugtak sem er vandmeðfarið, frá því er allt of stutt leið sem liggur að þjóðernishyggju, sem er ekki eftirsóknarvert að mínu mati. Þá er það hugsunarhátturinn við og þeir sem ræður ríkjum. En hvað er þá þjóð? Er það fólk sem býr í ákveðnu landi? Sumir segja nei, fólk alið upp á Íslandi býr jú víða um heim tilheyrir það þá ekki okkar þjóð? Sumir segja tungumál, kannski að vissu marki en samt ekki endilega. Sumir segja menningin og sagan. Er það þá svo að til að teljast Íslendingur þá þurfir þú að geta vitnað í helstu Íslendingasögurnar, þekkt öndvegissúlur Ingólfs Arnarssonar, trúað því statt og stöðugt að Leifur heppni hafi fundið Ameríku (þó svo að fólk hafi þá búið þar í margar aldir), þú þurfir að fara á Þorrablót, syngja með angurværum tenórum, súpa á brennivíni og sporðrenna hákarli? Svarið er nei en þó er það svo að allt sem ég hef talið upp, getur talist góðra gjalda vert. Fyrir einhverjum kann þetta að vera kjarni Íslendingsins, í honum sjálfum. Hjá öðrum getur það verið tónlist Bubba Morthens, fjöllin, sjómennskan, kvennalandsliðið í knattspyrnu eða bara hvað sem er. Það er einmitt kjarni málsins. Ég tel að það sem geri okkur að Íslendingum sé svo margt. Sum okkar tengir sagan, aðra tengir málið, fyrir einhverja er það menningin, suma búsetan o.s.frv.

Við megum aldrei gleyma því að við lifum nú breytilega tíma hvort sem um er að ræða tækni eða menningu. Hingað til lands og þar með til Dalvíkur hefur fólk frá öðrum löndum kosið að koma og setjast hér að. Í þjóðernishyggjunni er þessum nýju íbúum tekið með tortryggni og þeir jafnvel taldir varasamir fyrir þjóðina. Ég óska þess hins vegar að við berum þá gæfu að skilgreina okkur sem þjóð með fjölmenningu í huga. Eins og ég sagði áðan þá eigum við okkar sögu sem við skulum alls ekki gleyma heldur horfa til með virðingu en einnig gagnrýni, hún sameinar sum okkar. Við eigum okkur líka tungumál sem er stórmerkilegt, það skulum við varðveita en samt ekki friða. Við þurfum að leyfa málinu að þróast, ekki loka það inni á stofnun. Við eigum okkar menningu sem nýtur þess að tengjast framandi menningu og geta jafnvel af sér nýja og fjölbreytta menningu. Við eigum öll að taka höndum saman og búa hér til samfélag sem einkennist af friði, metnaði, virðingu og jákvæðni, fyrir alla og meðal allra sem byggja þetta samfélag. Þess vegna vil ég að lokum segja að 17. júní er hátíðisdagur þar sem við gleðjumst yfir því að lýðveldið Ísland er 70 ára í dag, við erum þjóð á meðal þjóða og í því felst að koma fram við aðra af virðingu og taka vel á móti þeim sem hingað koma. Þeir geta kennt okkur margt og einnig lært af okkur. Saman horfum við fram á veginn og segjum hæ,hó og jibbí jei.


Ég þakka þeim sem á hlýddu.