Jóhannsstofa

Jóhann Kr. Pétursson Svarfdælingur fæddist á Akureyri 9.febrúar árið 1913 en óx úr grasi í Brekkukoti í Svarfaðardal. Þegar kom fram á unglingsár tók hann vaxtarkipp og um tvítugt var hann orðinn 234 cm á hæð og vóg þá 163 kg. Í þá tíð var meðalhæð íslenskra karlmanna um 176 cm. Um tíma var Jóhann talinn hæsti maður í heimi.

Jóhann ólst upp í fátækt og fór snemma að vinna fyrir sér með sjómennsku og verkamannavinnu en líkamsvöxturinn olli honum ýmsum vanda og oft þjáningu. Hann óx hratt út úr öllum skóm og gúmmístígvél fengust ekki í hans stærð. Var hann æði oft blautur í fæturna  sem síðar átti eftir að hafa þær afleiðingar að hann var fótaveikur alla ævi. Hann þurfti að láta sérsauma á sig öll föt og sérsmíða skó en þess má geta að hann notaði skó númer 62. Kom stundum fyrir á þessum árum að fötin sem saumuð höfðu verið eftir máli voru orðin of lítil þegar hann sótti þau til klæðskerans.

22ja ára hélt hann til Danmerkur þar sem hann hóf að vinna fyrir sér með því að sýna sig forvitnum áhorfendum í fjölleikahúsum. Hann kom víða fram í Evrópu  meðal annars á heimssýningunni í París  árið 1937. Starfið var honum lítt að skapi enda illa launað og þar að auki fylgdu því þær kvaðir að hann mátti helst ekki láta sjá sig utandyra á milli sýninga. Jóhann starfaði við sýningarsörf í Danmörku og víðar í N-Evrópu næstu árin.  Árið 1945 kom hann heim til Íslands, ferðaðist um allt land og sýndi kvikmyndir. Árið 1948 flutti hann til Bandaríkjanna þar sem hann vann í fjölleikahúsum fram á eftirlaunaaldur. Einnig lék hann í nokkrum kvikmyndum vestanhafs.

Allan þann tíma sem Jóhann starfaði á erlendri grund leitaði hugur hans heim til Íslands og árið 1982  flutti hann aftur heim til Dalvíkur  til að eyða þar síðustu æviárum sínum. Hann lést á Dalbæ dvalarheimili aldraðra á Dalvík árið 1984 og hvílir í Dalvíkurkirkjugarði.

Jóhann kvæntist ekki en eignaðist dóttur og búa afkomendur hans erlendis.

Hægindastóll Jóhanns var smíðaður á Reykjalundi þegar Jóhann dvaldist þar. Stóllinn er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Til að vel færi um Jóhann á elliheimilinu og sjúkrahúsum þurfti að setja saman tvö rúm.

Reiðhjól Jóhanns var sérsmíðað, bíllinn hans og harmoníkan einnig.

 Þann 4. maí 2013 var haldið málþing í tilefni 100 ára afmælis Jóhanns. Þann sama dag flutti Samkór Svarfdæla verkið Of stór, dagskrá í tali og tónum, en höfundur verksins er Ívar Helgason. Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun um verkið en þar skrifar tónleikagestur.

http://www.icelandtraveltips.com/2013/05/going-local-through-local-culture.html