Dalvíkurskjálftinn

Jarðskjálftinn mikli sem reið yfir Dalvík 2. júní 1934 er mörgum eldri Dalvíkingum enn í fersku minni. Á 70 ára afmæli skjálftans var opnuð sýning í gamla búrinu í Hvoli helguð minningu hans. Þar er að finna minningar 28 einstaklinga sem upplifðu skjálftann og lýsingar þeirra á honum.

 
Talið er að skjálftinn hafi verið um 6,3 á richter og að upptök hans hafi verið undir hafsbotninum rétt utan við Dalvík. Gríðarlegar skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum á Dalvík og nágrenni.  Má segja að í þorpini hafi nánast hvert einasta hús stórskemmst eða eyðilagst í hamförunum. Þykir ganga kraftaverki næst að ekki urðu slys á fólki í þessum mestu náttúruhamförum sem orðið hafa á sögulegri tíð hér um slóðir.  Nokkrir snarpir eftirskjálftar fylgdu aðalskjálftanum og létu margir íbúar þorpsins fyrir berast í tjöldum fram eftir sumri bæði af ótta við eftirskjálfta og vegna þess að húsnæði var óíbúðarhæft. Stjórnvöld í landinu brugðust skjótt við með að meta og bæta skaðann og var í kjölfarið byggður fjöldi rammgerðra steinhúsa  sem nú mynda kjarna Dalvíkurbæjar.