Til íbúa Dalvíkurbyggðar

Þessa dagana og vikurnar eru margir uggandi. Bæði einstaklingar og fyrirtæki hafa þegar orðið fyrir höggi vegna þeirra hamfara sem nú eiga sér stað á fjármálasviðinu; enn er eftir að vinna úr mörgum þáttum og því eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af fjárhag sínum og atvinnu. Við höfum líka orðið þess vör að íbúar hafi áhyggjur af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og hvernig því muni reiða af við þessar óvæntu aðstæður. Við fullvissum ykkur um að staða sveitarfélagsins er góð. 

Ársreikningur 2007 sýndi trausta stöðu, við höfum getað framkvæmt mikið á undanförnum árum án þess að taka lán og fjárhagsáætlun þessa árs sýnir traustan efnahag og góðan rekstur. Samt er aldrei of varlega farið. Þess vegna fórum við í það þegar í sumar, þegar sýnt var að stefndi í erfiðari rekstur vegna mikillar verðbólgu, að endurskoða framkvæmdaáætlun ársins. Nú þegar hefur verið haldinn fundur með forstöðumönnum stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins til að fara yfir stöðuna og útlitið. Nú þarf sem aldrei fyrr að forgangsraða rétt, bæði við rekstur og framkvæmdir.

Dalvíkurbyggð hefur mörg lögbundin verkefni sem snúa að menntun og velferð. Það er mikilvægt á tímum sem þessum að þau séu rækt vel. Það eru líka gerðar kröfur til sveitarfélagsins um að halda uppi tilteknu atvinnustigi þegar hart er í ári. Þess vegna er mikilvægt að áformuðum framkvæmdum sé haldið áfram um leið og vel er gætt að fjárhag sveitarfélagsins. Í sumar var boðin út bygging nýs íþróttahúss. Tréverk átti lægsta tilboð í framkvæmdina sem nú er hafin. Þetta er stórt verk og fjárfrekt og að því verður áfram unnið þó framkvæmdin kunni að taka yfir lengra tímabil en áformað var í fyrstu.

Dalvíkurbyggð er öflugt sveitarfélag og líklegt að bæði sveitarfélagið og atvinnulífið muni komast nokkuð vel í gegnum þennan brimskafl. Hætt er þó við að eitthvað muni undan láta og margir eru undir miklu álagi vegna aðstæðna sinna eða fjölskyldna sinna og vina. Það er því mikilvægt að við sýnum hvert öðru tillitsemi og vináttu. Hikið ekki við að leita til starfsfólks sveitarfélagsins með áhyggjur ykkar og spurningar. Sími í þjónustuveri er 460 4900.

Við bæjarfulltrúar í Dalvíkurbyggð munum samhent takast á við þessar aðstæður og leysa þau mál sem upp kunna að koma. Í þessum flóknu aðstæðum kunna líka að felast tækifæri sem er mikilvægt að við horfum á, nýtum okkur og treystum þannig stöðu okkar til framtíðar. Við hvetjum ykkur til að reyna að horfa jákvætt fram á veginn, minnug þess að íslensk þjóð hefur áður tekist á við margvíslegan vanda sem hún hefur sigrast á.

Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar