Norðrið í norðrinu - sýning á grænlenskum gripum

Norðrið í norðrinu - sýning á grænlenskum gripum

Norðrið í Norðrinu er sýning sem opnar þann 2. júní næstkomandi á byggðasafninu Hvoli á Dalvík.


Byggðasafnið Hvoll á Dalvík hefur unnið að þvi sl. mánuði að búa til sýningu á munum frá Ittoqqortoormiit á Grænlandi en Dalvík og Ittoqqortoormiit eru vinabæir og á byggðasafnið marga gripi þaðan.


Á sýningunni „ Norðrið í norðrinu“ er reynt að varpa ljósi á það fólk sem býr í bæ sem er á norðurhjara veraldarinnar , 900 km norðar en næsta byggð. Konur og börn hafa mest vægi í sýningunni. Sýningin er römmuð inn af sérlega fallegum ljósmyndum eftir hollenska líffræðinginn og ljósmyndarinn Ko de Korte en hann tók myndirnar á árunum 1973 – 1975.


Heiti sýningarinnar er Norðrið í norðrinu og hún opnar, eins og áður sagði, þann 2. júní þar sem að börn og dansarar frá Ittoqqortoormiit sýna listir sínar. Sýningin sjálf verður í Byggðasafninu Hvoli en opnun sýningarinnar verður í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík 2.júní kl. 14:00. Þar verða einnig munir frá Grænlandi , hundasleði meðal annars. Hundasleðinn verður settur upp í Bergi dagana fyrir opnun og gæti verið skemmtilegt að fylgjast með þegar sleðinn er fluttur á staðinn og settur upp.


Sýningin verður í byggðasafninu til 1. mars 2014 en þá verður hún flutt til Óðinsvé í Danmörku. Þar verður hún sett upp í glænýju Norður Atlantshafshúsi. Eftir að hafa verið þar í nokkra mánuði fer hún til Grænlands.


Sýningin hefur hlotið styrki frá Norræna menningarsjóðnum, NATA, Letterstedska föreningen, Menningarráði Eyþings, Menningarráði Dalvíkurbyggðar, Menningarsjóði Sparisjóðs Svarfdæla , Norlandair og Safnasjóði Íslands.


Allar nánari upplýsingar veitir
Íris Ólöf Sigurjónsdóttir
Forstöðumaður byggðasafnsins á Dalvík og sýningarstjóri
Sími 892 1497 og 4661497