Hugleiðsluhádegi

Hugleiðsluhádegi er hugsað fyrir alla þá sem vilja stilla sig af, gefa sjálfum sér örfáar mínútur, finna innri frið og þjálfa hugann. 

Hugleiðsluhádegi verður vikulegur viðburður, alla fimmtudaga frá kl. 12.15-12.30 og fer fram í undirgöngum milli bóka og héraðsskjalasafns. Algjör óþarfi er að vera í sérstökum klæðnaði. Helsta markmiðið er að vel fari um alla. Dýnur, stólar og púðar eru á svæðinu en við hvetjum fólk sem hefur tök á að kippa með sér teppi eða einhverju hlýju til að hámarka vellíðan á meðan stundin varir. Hugleiðsluhádegi

Hugleiðsluhádegið er viðburður á algjöru tilraunarstigi, eitthvað sem iðkendur munu þróa í sameiningu. Til þess að mæta þarf enga fyrirfram þekkingu eða reynslu af hugleiðslu - bara ykkur sjálf, hugsandi verur í holdi klæddum líkama.

Af hverju að hugleiða?

Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri nýtt sér aðferðir hugleiðslu til að öðlast hugarró og frið auk þess sem meiri áhersla hefur verið lögð á að einstaklingar leggi rækt við eigið sjálf. Við heyrum í sífellu að mikilvægt sé að hugsa vel UM sig, hreyfa sig og borða hollt en jafnvel mikilvægara er að hugsa vel TIL sín. 

Í hversdagslegum athöfnum skella ótal hugsanir á einstaklinga hverja einustu mínútu. Með því að þjálfa hugann og koma skikkan á hugsanir sínar kyrrist hugurinn smám saman. Það er ákveðið frelsi fólgið í því að leyfa sér að staldra við, slaka á og leyfa hugsunum um fyrirliggjandi verkefni að þjóta hjá án þess að maður þurfi að dvelja of lengi við þær. Með því að leyfa hugsunum og tilfinningum að líða hjá verður oft auðveldara að takast á við þær seinna meir. Hugleiðsla er ekki flótti frá heiminum eða nærumhverfi sínu, þvert á móti er hugleiðsla ein aðferð til að takast á við daglegt líf með frið og hamingju að leiðarljósi. 

Sagt hefur verið að ef einstaklingur nær að hugleiða í einlægni, þó ekki sé nema í örfáar mínútur snemma dags þá gætir áhrifanna út allan daginn. 

Hugleiðsla snýst ekki um að stjórna huganum, þvert á móti snýst hugleiðsla að taka eftir því hvert hugsanirnar fara og vera vakandi fyrir þeim án þess að stjórna þeim og stýra.

Margir hugsa ef til vill - "æji ég hef ekki tíma núna - kannski seinna" ...osfrv. - en hugleiðsluhádegið snýst akkúrat um að búa til þennan tíma. Gefa sjálfum sér þessar mínútur. Þetta er í raun gjöf sem enginn annar en þú sjálf/ur getur gefið þér. 

Hugleiðsluhádegi í undirgöngunum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hugleiðsluhádegi stendur yfir í ca 15 mínútur, alla fimmtudaga frá 12.15-12.30 og mun halda áfram að vera vikulegur viðburður alla fimmtudaga í sumar.