Nóg framundan á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Nóg framundan á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Sem endranær er nóg um að vera hjá okkur á Bókasafni Dalvíkurbyggðar og verður engin breyting þar á í nóvember og desember. 

Í dag, fimmtudaginn 9. nóvember, byrjum við aftur með sögustundir á pólsku en lagt er upp með að þær verði 1-2 í mánuði frá og með deginum í dag. Sögustundirnar verða í umsjá þeirra Önnu Aniu og Urzulu Oleszko Terechowich og fer samverustundin fram í barnahorni bókasafnsins. Athugið að börnin eru á ábyrgð foreldra og forráðamanna á meðan sögustundin varir. Sögustundirnar eru frábær leið fyrir pólskumælandi foreldra og forráðamenn að örva og styrkja málþroska og læsi. Á bókasafninu má auk þess finna gott úrval lesbóka á pólsku, bæði fyrir börn og fullorðna og leggjum við mikið upp úr því að byggja upp pólskan bókakost. Sögustund á póslku

Biblioteka miejska w Dalviku zaprasza dzieci na czytanie polskich bajek, które odbywać się będzie raz lub dwa razy w miesiącu poczynając od listopada.

Czytać będą na przemian Urszula Terechowicz Oleszko i Anna Wilicka, a spotkania odbywać się będą w kąciku dla dzieci naszej biblioteki. Zapraszamy do udziału dzieci wraz ze swoimi rodzicami i opiekunami, którzy opiekują się dziećmi i ponoszą za nie odpowiedzialność podczas trwania spotkania.

Nasze spotkania są świetnym sposobem dla rodziców i opiekunów na wspieranie i wzmacnianie rozwoju umiejętności językowych a szczególnie umiejętności czytania u dzieci.

Biblioteka oferuje szeroki wybór książek w języku polskim, zarówno dla dzieci jak i dla dorosłych.

Zapraszamy i mamy nadzieję spotkać jak najwięcej z Was w naszych progach.  

Námskeið í bókabroti

Á laugardaginn 11. nóvember verður síðan boðið upp á námskeið í bókabroti og verður það í umsjá Árdísar Fjólu Jónmundsdóttur. Árdís ætlar að miðla þekkingu sinni og fara yfir grunnatriði í bókabroti og sýna þannig nokkrar leiðir sem hægt er að fara til að gefa gömlum bókum nýtt líf. Árdís verður með bækur á staðnum sem áhugasamir geta fengið að brjóta en annars má líka koma með sínar eigin.

Fólki er frjálst að koma og fara á þessum tíma, ekki er nauðsynlegt að mæta stundvíslega klukkan 13.00 og eins er ekki krafa að fólk sitji allan tímann. Við hvetjum alla til að líta við og kynna sér bókabrot enda leynast í því ótal ófyrirséðir möguleikar.

Það er enginn þátttökukostnaður og að sjálfsögðu allir velkomnir.

 

 

Fimmtudaginn 16. nóvember er síðan afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar og jafnframt Dagur íslenskrar tungu - Á þessum hátíðisdegi verður nóg um að vera á Bókasafni Dalvíkurbyggðar. Hægt verður að kjósa um fallegasta íslenska orðið, við veltum aðeins fyrir okkur Dalvískunni ódauðlegu og síðast en ekki síst verður framkvæmdur samstarfsgjörningur milli  bókasafnsins og elstu bekkja Dalvíkurskóla þar sem stefnt er að því að manngera hLJÓÐAorm sem smýgur sér á milli bókahilla, borða og stóla.íslensk tunga

Gjörningnum verður ekki lýst frekar hér enda sjón alltaf sögu ríkari og ætti enginn að láta þetta framhjá sér fara, stundvíslega kl. 12.30 í Menningarhúsinu Bergi. Klukkan -Við minnum einnig alla á að fylgjast vel með bókasafninu á facebook og instagram - sama dag  verðurður síðan hátíðardagskrá í Bergi sem mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur fyrir. Hátíðardagskráin samanstendur af sigurvegurum úr Stóru upplestrarkeppninni, sem lesa ljóð eftir Jónas Hallgrímsson. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar verða veitt verðugum viðtakanda og sérstök viðurkenning fyrir framlag til íslenskunnar verður einnig afhent við þetta tækifæri. 

Verkefnið "raddir íslenskunnar" verður stuttlega kynnt en þar svara ýmsir þessum spurningum: 
Hvers vegna er íslenskan mikilvæg fyrir þig? 
Hvers vegna ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?

Það verður vissulega spennandi að taka þátt í þessari miklu hátíðardagskrá og að sjálfsögðu eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. 

 

Strax daginn eftir, 17. nóvember kl. 10.15-11.00 verður næsti viðburður en þá verður haldinn annar foreldramorgun vetrarins. Á fyrsta foreldramorgninum kom Lára Bettý hjúkrunarfræðingur til okkar og fór yfir fyrstu hjálp fyrir ungabörn, helstu öryggisþætti og hvað er gott að hafa í huga hvað þetta varðar. Viðburðurinn var virkilega vel sóttur og vonum við að áframhald verði á góðri mætingu. Að þessu sinni fáum við til okkar Ólínu Freysteinsdóttur sem er fjölskylduráðgjafi hjá Fjölskylduráðgjöf Norðurlands - Skref. Ólína ætlar að fara yfir það helsta í fjölskylduráðgjöf, samskipti foreldra innbyrgðis og við börnin og ýmislegt er við kemur margvíslegum verkefnum fjölskyldunnar. Börnin eru að sjálfsögðu velkomin með foreldrum sínum og stundin fer fram í barnahorni bókasafnsins. 

Laugardaginn 18. nóvember ætlum við að prófa að halda það sem við köllum leikfangaskiptimarkað! Það þekkja það eflaust margir foreldrar hversu mikið magn leikfanga liggur ósnert í herbergjum barna eftir ákveðinn tíma. Við spyrjum – er ekki tilvalið að gera smá leikfangatiltekt fyrir jólin? Skipta út og gefa gömlum gullum nýtt líf á öðrum stað á sama tíma og þú getur endurnýtt frá öðrum.

Leikfangamarkaðurinn gengur þannig fyrir sig að fyrir hvert leikfang sem er lagt á markaðinn er gefinn einn „bókasafnspeningur“ sem síðan má nýta til að versla eitt annað leikfang á markaðinum.

Einfalt mál: Eitt leikfang = einn bókasafnspeningur

 

Í lok mánaðarins kemur svo rúsínan í pylsuendanum því þá er það Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur sem sækir okkur Dalvíkinga heim. Vilborg var að gefa út nýja bók, þá síðustu í þríleiknum um landsnámskonuna Auði. Bókin heitir Blóðug jörð en fyrri bækurnar í þessari röð heita Auður og Vígroði og hlutu þær fádæmagóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Fyrirlestur Vilborgar fer fram í fyrirlestrarsal Menningarhússins Bergs og verður auglýst meira og betur síðar. Við bendum m.a. á viðburðinn á viðburðardagatali Dalvíkurbyggðar fyrir frekari upplýsingar: https://www.dalvikurbyggd.is/is/mannlif/vidburdadagatal/bokakynning-vilborgar-davidsdottur

Vilborg Davíðsdóttir með bókakynningu

 

Ný sýning í sýningaskáp bókasafnsins

Að lokum viljum við hvetja ykkur til að gera ykkur ferð á bókasafnið til að kíkja á nýja sýningu í sýningarskápnum hjá okkur. Að þessu sinni er skápurinn tileinkaður Norðurslóð sem fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Á sýningunni má sjá fyrsta útgefna tölublað Norðurslóðar, ljósmyndir frá starfinu, búnað sem hefur verið notaður við útgáfu og fleira sem tengist 40 ára sögu Norðurslóðar.

 

Annars er allt gott að frétta hjá okkur á bókasafninu, lífið gengur sinn vanagang. Leikskólahóparnir hafa komið í reglulegar heimsóknir – Dalvíkurskóli og Árskógarskóli hafa auk þess komið í bókasafnsheimsókn og hugleiðsluhádegin eru alltaf á sínum stað. Nú eru jólabækurnar óðum að streyma inn og ekki seinna vænna en að fara að huga að jólalestrinum. Margar bækur eru komnar inn núþegar en margar eiga enn eftir að koma. Fylgist spennt með nýjum bókum á fésbókarsíðu bókasafnsins og instagram auk þess sem hægt er að skoða allar nýjar bækur undir flipanum safnkostur – nýjar bækur.

 

 

Látum þetta ekki vera lengra í bili – enda nóg að melta enn um sinn.

Við minnum að sjálfsögðu á facebooksíðuna okkar þar sem er alltaf líf og fjör, instagram og að sjálfsögðu heimasíðuna, sem hefur fengið nýtt og uppfært útlit og allar helstu upplýsingar er að finna.

Við erum á instagram og facebook