,,Í hjarta mér það snjóar bara og snjóar.

Nú er byggðin orðin mjalla-hvít og veturkonungur hefur bankað uppá, enda október brátt á enda og haustið löngu komið með allri sinni litadýrð. Það er því ekki úr vegi að líta yfir vel heppnað sumar og haust á Bókasafninu.

Í sumar hélt Bókasafnið í sínar föstu hefðir með m.a. sumarlestri, bókaskjóðum og bóksölu. Margir flottir lestrarhestar tóku þátt í sumarlestri en alls voru um þrjátíu börn sem skrifuðu undir lestrar-samning. Í lok ágúst voru svo tveir heppnir dregnir í lestar-lukkuhjólinu og fengu skemmtilegar bókagjafir. Einnig fengu allir sem stóðu við sinn lestrarsamning viðurkenningarskjal frá Bókasafninu. Við hlökkum strax til næsta sumars! Þá verða líka smá breytingar í sumarlestrinum sem gera lesturinn ennþá meira spennandi fyrir þáttakendur! 
Bókaskjóðurnar voru einnig duglegar að fara í útlán og var þemað þetta sumarið að fara út og rannsaka náttúruna og að draga fullorðna fólkið með út að leika sér! Enda ekkert betra en að leika sér í náttúrunni. 

Annars var ávalt líf og fjör safninu, sérstaklega í barnahorninu enda hefur það alltaf vakið mikla lukku hjá yngri kynslóðinni, sérstaklega eftir breytingarnar í vor!

Hjólið í lag fyrir sumardag var líka á sínum stað, en í ár var Berg í samstarfi með okkur og breyttist framkvæmdastjóri Bergs, Dagur Óskarsson, í hjóla-viðgerðarmann sem tók við hjólum og gerði þau eins og ný! 
Samstarfið við Berg var svo skemmtilegt að við slóum til í annan viðburð og fengum hina stórskemmtilegu Húlladúllu í heimsókn sem hélt utan um leikjadaginn. Hún sýndi fullt af skemmtilegum sirkusatriðum og kenndi okkur á sirkusdót og allskonar leiki, bæði þessa gömlu góðu og nokkra nýja skemmtilega sirkus leiki. 

Fleiri viðburðir voru í bygðarlaginu í sumar og má þar nefna okkar mikla Fiskidag. Heiðursgestir Fiskidagsins voru Hinsegin dagar í Reykjavík og mátti meðal annars sjá götur bæjarins í fjölbreyttum regnbogans litum. Við á bókasafninu létum okkur ekki vanta í gleðina og fögnuðum fjölbreytileikanum eins og við gerum alla daga.  Við vorum einnig með bóksölu, þar sem margar bækur sem lentu í grisjunar-átakinu fyrr á árinu fengu nýtt tækifæri. Margar bækur seldust og hafa nú fengið ný heimili! Við stefnum á að hafa aftur bóksölu í kringum jólin, enda bækur bestu jólagjafirnar, svo við tölum nú ekki um endurnýtnina! 

 

Sumarið leið og haustið mætti með sína fallegu liti, blómstrandi berjalyng og syngjandi (og gargandi) farfugla sem undirbjuggu sig fyrir utanlandsferðir sínar. Sumarstarfsmenn luku við vel unnin störf á safninu og héldu í nám.

Fyrsti haust-viðburðurinn varð svo þann 21. september. Þá mátti sjá í Bergi fljúgandi dróna, rúllandi róbóta, lazer-skurðvél og ýmist fleiri hátæknilega hluti sem vöktu undrun gesta Menningarhússins. Það hafa hugsanlega einhverjir haldið að nú væri tæknin endanlega búin að yfirtaka heiminn, en svo var ekki. Þennan dag var nefnilega Tæknidagur á vegum Dalvíkurskóla, en þessa dagana tekur skólinn þátt í Erasmus+ verkefni sem snýr að forritun yngri barna. Við á bókasafninu vorum (og erum) afar áhugasöm um þetta frábæra verkefni og ákváðum að efna til samstarfs við Dalvíkurskóla. Ákveðið var að halda tæknidag í Bergi þar sem 6-13 ára börn fengu að prófa alls kyns tæknidót. Þennan dag streymdu inn hátt í hundrað gestir sem að annaðhvort fylgdust með eða fengu að prófa margt af ótrúlegasta dóti tækninnar. Þarna var hægt að stjórna litlum róbótum, hverfa inn í heim sýndarveruleika, spila á banana og fá litaðar fígúrur á blaði til að lifna við - já þetta hljómar allt ótrúlega. En það er nefnilega það sem er svo einstakt við tæknina, að við getum nú orðið framkvæmt hið ótrúlega. 
Við vorum einstaklega ánægð með vel heppnaðan viðburð og var því strax ákveðið að endurtaka leikinn sem allra fyrst!

 Fleiri viðburðir eru á döfinni - svo fylgist vel með á Facebook-síðu- og viðburðardagatali safnsins!

Það urðu fleiri breytingar á safninu, að þessu sinni voru það starfsmannabreytingar. Eftir sex fyrirmyndar starfsár, ákvað Jolanta okkar að halda á vit ævintýranna og sagði starfi sínu lausu á Bókasafninu. Við erum að sjálfsögðu leið að missa hana frá okkur, en við gleðjumst þó yfir nýjum tækifærum sem bíða hennar og munum fylgjast vel með henni hinumegin við götuna. 

Í hennar stað var ráðin til starfa ung og efnileg stúlka, Amanda Guðrún Bjarnadóttir, og mun hún standa vaktina hjá okkur til ókomins tíma! Við bjóðum henni hjartanlega velkomna til starfa.

 

 

Að lokum sýnum við myndir af bóka-þemum og sýningum sem hafa verið hér á safninu og minnum ykkur á að á næstu dögum fer jólabókaflóðið hægt og rólega að flæða inn í safnið!

Sýningaskáparnir á Bókasafninu eru ávalt með skemmtilegar þemur tengt bókum. Í sumar var ,,Lýðheilsa" og nú er þemað ,,Ferðalög". Ný útstilling er á döfinni!

Sýningaskápar á vegum Héraðs- og Byggðasafnsins. Nú er til sýnis munir frá Byggðasafninu og annálabækur frá Gangnamannafélagi Sveinstaðarafrétt í tilefni gangna og rétta. Það ríkir ávalt mikil gleði í kringum kinda- og hestaréttir hér í byggð í september og október. Ný útstilling er á döfinni!

Hér má sjá bóka-útstillingar með ákveðnum þemum. 


Barnabækur úr geymslunni sem vekja fortíðarþrá


Dagur Íslenskrar náttúru

 
Haustþema


Bleikur október - tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. 


200 ára afmæli þjóðsagnasafnarans Jóns Árnasonar