Bókaskutlið hættir

Samkvæmt tilmælum frá Heilbrigðisráðuneytinu þurfa því miður öll bókasöfn að leggja niður alla þjónustu á meðan samkomubann stendur yfir. Þetta á líka við um snertilaus útlán eins og bókaskutlið okkar. Þetta er að sjálfsögðu mikill skellur fyrir okkur og okkar lánþega en að sjálfsögðu hlýðum við öllum fyrirmælum með brosi á vör.

Nú er bara að finna aðrar og nýjar lausnir. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta tímann og skoða bókahillurnar heima hjá sér - þar leynast eflaust einhverjar bækur sem aldrei hafa verið lesnar. Jafnvel bækur sem hafa verið á leslistanum í mörg ár. 

Nú, ef allar bækur í hillum eru rækilega lesnar þá mælum við með því að skoða RAFBÓKASAFNIР- Helstu leiðbeiningar um hvernig það skuli nota má finna HÉR. Þetta er einnig gott tækifæri til að sækja sér storytel og hlusta á vel valdar skáldsögur á meðan páskasteikin er undirbúin, myndin er máluð eða geymslan er tekin í gegn...  svo dæmi séu tekin...

Það er okkur hjartans mál að fólk nýti tímann til að auðga ímyndunaraflið, lesa sögur, hlusta á raddir - ferðast í huganum - upplifa eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn. Það er hægt að gera með ótal leiðum. Heimurinn stækkar einnig við að lesa barnabækur fyrir börnin í kringum okkur. Ekki gleyma því að þó við séum langt frá þeim sem við elskum þá er alltaf hægt að lesa fyrir hvort annað í gengum síma eða fjarskiptabúnað. Svo má ekki gleyma því að þjóðin öll er í lestrarátaki og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að taka þátt í því - sjáið meira um málið á TÍMI TIL AÐ LESA.  

 

Við ítrekum að engar sektir falla á þær bækur sem fólk er með heima hjá sér og að sjálfsögðu verður öllum gefið svigrúm til að skila innan skynsamlegra marka þegar við opnum á nýjan leik. 

 

Við hvetjum ykkur endilega til að hafa samband ef það er eitthvað sem við getum gert til að aðstoða ykkur - við getum t.d. aðstoðað ykkur með rafbókasafnið og storytel - að setja upp notkunarreikning eða leiðbeina hvernig skuli nota forritin. 

Það má alltaf hringja í síma 460-4931, senda skilaboð á facebook eða tölvupóst á bjork@dalvikurbyggd.is

Fössarasprell

 

Þó að við getum ekki afgreitt ykkur um bækur þá munum við að sjálfsögðu reyna áfram að glæða hversdaginn ykkar lífi, hlátri og gleði með allskonar sprelli á samfélagsmiðlunum okkar -

svo alls ekki hætta að fylgjast með okkur þar ;)

 

Bókasafnið á Facebook

Bókasafnið á Instagram

 

Hafið það sem allra best í dymbilvikunni og njótið páskahátíðarinnar <3