Pokastöð Dalvíkur með kynningu á Bókasafninu

Pokatré bókasafnsins.
Pokatré bókasafnsins.

Á morgun, föstudaginn 5. maí verða nokkrar forsvarskonur Pokastöðvar Dalvíkur með kynningu á því frábæra starfi sem hófst í upphafi árs. Boðið verður upp á sýnikennslu og aðstoð við að sauma fjölnota burðarpoka úr efnisafgöngum og bolum og er fólk beðið um að koma með verkfæri með sér, þó einhver verði á staðnum. Viðburðurinn stendur yfir frá 15.00-17.00 en fólki er frjálst að koma hvenær sem er á þessum tíma. Bókasafn Dalvíkur bíður upp á kaffibolla þar sem það verður því miður lokað á Basalt á þessum tíma. Ef veðrið heldur áfram að leika við okkur eins og það hefur gert síðustu daga er alls ekki ólíklegt að við skellum okkur hreinlega út á pallinn. 

Pokastöðin Dalvík

Pokastöðin Dalvíkurbyggð/Tröllaskaga hefur sett sér það markmið að útrýma einnota plastpokum úr verslunum á Tröllaskaga. Með því að gera fjölnota taupoka aðgengilega til láns í helstu verslunum og þjónustustöðvum vonast þau til að vekja fólk til vitundar um skaðsemi plastnotkunar og takmarka þannig plastnotkun á svæðinu. Pokastöðin Tröllaskaga er hluti af stærra samfélagi sem er stýrt frá Pokastöðinni á Höfn í Hornafirði en auk þess eru þau í samstarfi við alþjóðlega verkefnið Boomerang bags. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefni Boomerang bags hér. 

Pokastöðin er rekin í sjálfboðavinnu en auk þess styrkir Rauði krossinn verkefnið með því að bjóða fólki að nálgast hjá þeim efni, til þess að sauma poka, sér að kosnaðarlausu.  Við hvetjum því fólk eindregið til að líta við í verslun Rauða krossins í dag eða á morgun og næla sér í boli eða efnisbúta fyrir morgundaginn. 

Bókasafnið er nú stoltur þátttakandi í verkefni Pokastöðvarinnar en við viljum leggja okkar að mörkum og takmarka plastpokaneyslu í Dalvíkurbyggð. Enn sem komið er má finna tvær pokastöðvar í Dalvíkurbyggð, aðra á bókasafninu og hina í Kjörbúðinni. Fólki er þar af leiðandi frjálst að fá poka að láni á bókasafninu og skila honum í Kjörbúðina og öfugt. 

Þess má auk þess geta að nýjar bækur komu á safnið í síðustu viku og hugleiðsluhádegið verður á sínum stað í dag, fimmtudag kl. 12.15-12.30.Nýjar bækur

Við viljum vekja athygli á því að lokað verður á veitingahúsinu Basalt frá og með morgundeginum og fram að fimmtudeginum 11. maí. Opnunartími bókasafnsins og Bergs verður þó áfram óbreyttur á þessu tímabili.