Nú þegar hausta tekur...

Við minnum á Fössarafésbókina á hverjum föstudegi á Fésbókinni  og Instagram. Fylgið okkur í netheim…
Við minnum á Fössarafésbókina á hverjum föstudegi á Fésbókinni og Instagram. Fylgið okkur í netheimum jafnt sem raunheimum!

Sumarið virðist engan enda ætla að taka hjá okkur í Dalvíkurbyggð en þrátt fyrir viðvarandi hita og sólargeilsa er haustrútínann að ganga í garð hjá okkur á bókasafninu. Við tökum því að sjálfssögðu fagnandi með allri sinni litardýrð og bláberjum.

 

sumir völdu að leika sér í bókatjaldinu

 

Í gær komu fyrstu tveir leikskólahóparnir frá Krílakoti og í dag kom sá þriðji. Við byrjuðum veturinn á því að kynnast safninu, lesa sögur, upplifa rýmið og skoða sýningar í sýningarskáp og sal menningarhússins. Allir hóparnir fengu að sjálfsögðu að fara niður í stjörnugöngin þar sem heimspekilegar vangavelur um himingeiminn, stjörnumerki og ljósár áttu sér stað. Þegar við slökktum ljósin reynum við að finna stjörnumerkin okkar í stjörnuprýddu loftinu og forstöðumanni til mikillar undrunar fundu allir sitt stjörnumerki, ja hérna hér - ég legg ekki meira á ykkur.

 

Ljósmyndahópurinn hittist á Héraðsskjalasafni Svarfdæla frá 10-12 á miðvikudögum

Ljósmyndahópurinn kemur saman á Héraðsskjalasafni Svarfdæla á morgun í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Til að byrja með verður farið yfir veturinn, skipulagið, verkefni sem liggja fyrir og fleira – auðvitað lítum við líka á nokkrar myndir og gæðum okkur á kaffi og kexi. Við hvetjum alla sem hafa áhuga að mæta og kynna sér starfsemina. Það eru allir velkomnir að líta við og það er að sjálfsögðu opið fyrir alla aldurshópa.

Nú eru Jolanta og Rósa komnar aftur eftir sumarleyfi og Björk Eldjárn, sem hefur staðið sig svo vel í sumar, snúið sér að BA ritgerðarskrifum í þjóðfræði. Björkin verður okkur þó innan handar á bókasafninu því hún ætlar að aðstoða okkur við afleysingar og hugsanlegar laugardagsopnanir í vetur.   

Að lokum langar okkur að segja ykkur frá því að við vorum að fá helling af nýju efni á bókasafnið og ættu allir aldurshópar að geta fundið eitthvað við sitt hæfi – um er að ræða spennusögur (ein þeirra ferðast meira að segja alla leið til Dalvíkur), barnabækur, unglingabækur, myndasögur, prjónablöð, ljúfsárar ástarsögur, lífsstíls- ljóða og sjálfshjálparbækur.

Nýjar bækur á Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Allir þeir sem stóðu við samninginn sinn um sumarlestur mega endilega sækja viðurkenningarskjalið sitt á bókasafnið í vikunni og á föstudaginn ætlum við að draga einn heppinn vinningshafa úr þeim lesendum sem náðu sínum markmiðum. Sigurvegarinn verður að sjálfssögðu tilkynntur á föstudaginn næstkomandi.

Við minnum á nýja sýningu í sýningarskáp bókasafnsins þar sem þemað er Göngur og réttir í tilefni þess að nú er búið að ganga og rétta í Svarfaðardal. Endilega komið, skoðið, hlustið og njótið.Ný sýning í sýningaskáp bókasafnsins

 

Hlökkum til að sjá ykkur öll á bókasafninu í haust en þess á milli má finna okkur á samfélagsmiðlum hér:

Facebook - Instagram