Bókasafnsdagurinn 8. september

Hátíðardagur allra bókasafna verður föstudaginn nk, 8. september!
Hátíðardagur allra bókasafna verður föstudaginn nk, 8. september!

Lestur er bestur - fyrir lýðræði!

Bókasafnsdagurinn er haldinn árlega á bókasöfnum landsins og í tilefni dagsins er boðið upp á sérstaka dagskrá á almenningsbókasöfnum víðsvegar um landið. Í ár er bókasafnsdagurinn tileinkaður lýðræði og því mikilvæga hlutverki sem bókasöfn gegna í lýðræðissamfélögum.

Við á Bókasafni Dalvíkurbyggðar höldum daginn að sjálfsögðu hátíðlegan og bjóðum upp á fjölbreytta dagskrá á Bókasafnsdaginn - föstudaginn 8. semptember!

Bókasafnið verður opið fyrir gesti og gangandi eins og venjulega frá kl. 10.00 – 17.00 – ný sýning í sýningarsal Bergs - kaffi og syndsamlega góðar veitingar Basalt+bistro.

Fyrir hádegi fáum við tæplega 80 hressa krakka úr 5-8 bekk Dalvíkurskóla í heimsókn á safnið. Þau taka þátt ratleik þar sem þau fá tækifæri til að kynnast safninu og bókakostinum á skemmtilegan og öðruvísi hátt.

Bókasafnsdagurinn 2017

 

Yfir daginn verður hægt að nálgast svokallað blint útlán - þar sem nokkrar bækur hafa verið sérvaldar, þeim pakkaðar inn og búnar til útláns. Eina sem lánþegar þurfa að gera er að velja sér pakka. Hugrakkir lánþegar geta því freistað gæfunnar, stokkið út fyrir þægindarammann og tekið blint útlán – við ábyrgjumst að allir sem taka slík útlán munu kynnast einhverju nýju sem þeir hefðu annars ekki gert.

Í kjallaranum verður opið á bæði bókamarkaðinn og púsl- og spilaskiptimarkaðinn. Nokkrar bækur urðu eftir frá Bókamarkaðinum mikla sem haldinn var á Fiskidaginn og eru þær nú fáanlegar fyrir mjög viðráðanlegt verð í undirgöngum bóka- og héraðsskjalasafnsins. Púsl- og spilaskiptimarkaðurinn hefur fengið varanlegt heimili í kjallaranum þar sem fólk getur nú allan ársins hring komið og lagt inn spil eða púsl og tekið annað í staðinn. Fyrir þá sem vilja eignast spil eða púsl af markaðinum en eiga ekkert til að leggja inn á móti er boðið upp á þann möguleika að kaupa 1 stk. á 500 kr.-

Ný sýning verður komin í sýningarskáp safnsins en að þessu sinni er þemað göngur og réttir. Þemað er að sjálfsögðu ekki gripið úr lausu lofti því næstu helgi er bæði gengið og réttað í Svarfaðardal. Sýningin inniheldur bækur, ljósmyndir af Héraðsskjalasafni Svarfdæla, hljóðdæmi og margt fleira. Við hvetjum alla eindregið til að líta við og koma sér í réttu/ar stemminguna fyrir komandi helgi.

Á föstudeginum viljum við hvetja alla bæjarbúa sem einhverra hluta vegna hafa ekki þegar sótt sér lánþegaskírteini að gera slíkt. Allir íbúar Dalvíkurbyggðar fá bókasafnskort sér að kostnaðarlausu og er það þjónusta sem við erum afar stolt að bjóða upp á. Á bókasafninu er hægt að fá að láni allskonar bækur, skáldsögur, fræðibækur, ljósmyndabækur, kortabækur o.s.frv, hljóðbækur fyrir börn og fullorðna, tímarit,og mynddiska fyrir stóra sem smáa svo fátt eitt sé neft.

Við bjóðum alla hjartanlega velkomna á Bókasafn Dalvíkurbyggðar á föstudaginn til að halda upp á þennan sannkallaðan hátíðardag allra bókasafna!

Við munum að sjálfsögðu setja inn myndir af deginum á samfélagsmiðla og mælum sérstaklega með því að fólk finni okkur og fylgi á facebook og instagram. Það má m.a. gera hér: Ljósmyndir á facebook

Bókasafnið á facebook

Bókasafnið á Instagram - fylgist sérstaklega með sögunni (story) á föstudaginn. 

 

Eins og áður sagði eru bókasöfn um allt land að halda daginn hátíðlegan og geta áhugasamir fylgst með Bókasafnsdeginum á samfélagsmiðlum og undir myllumerknu #bokasafnsdagurinn og #lesturerbestur

FacebookBókasafnsdagurinn
Instagrambokasafnsdagurinn
Snapchatbokasafn.is
Twitter: @bokasafnsdagur