Við bjóðum alla velkomna á menningarhátíðina Svarfdælskan Mars 2023.
Að þessu sinni, líkt og áður verður boðið upp á efnivið úr héraði ásamt tónlistaratriði.
Fyrirlesararnir eru báðir Svarfdælingar í húð og hár, annar frá Jarðbrú en hinn frá Tjörn en báðir greina þeir frá verkum sem þeir eru að vinna að eða hafa nýlega gefið út.
Svarfdælingurinn Óskar Þór Halldórsson hefur á undanförnum mánuðum verið að skoða ýmsa ólíka hluti í byggðasögu Dalvíkurbyggðar á síðustu áratugum. Í nóvember á síðasta ári kom út eftir hann 50 ára afmælisrit Skíðafélags Dalvíkur og nú er hann að taka saman þætti úr 60 ára sögu Tréverks á Dalvík. Í erindi sínu ræðir hann um eitt og annað sem hefur orðið á vegi hans í þessu grúski.
Nágranni hans Þórarinn Hjartarson mun síðan greina frá sögu Ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar sem hann, ásamt konu sinni Margréti Guðmundsdóttur hafa verið að taka saman síðustu misseri og stefnt er á að komi út í einverju formi á næstu mánuðum.
Um tónlistina sjá Erla Kolbrúnardóttir og Gísli Rúnar Gylfason svo það má gera ráð fyrir að fólk gangi út í daginn, bæði einhvers vísari og endurnærðir á sál og líkama.
Kaffihúsið í Bergi verður opið í umsjón Kaffi Klöru frá 12.00-17.00
Við minnum á Heimsmeistaramótið í Brús sem haldið verður á Rimum, föstudagskvöldið 24. Mars kl. 20:00. Að venju verður spilað um Gullkambinn eftirsótta. Þátttökugjald er 1.000 krónur.
Að auki minnum við á Aðalfund Sögufélagsins sem verður haldinn á Bókasafni Dalvíkurbyggðar, sunnudaginn kl. 14:00. Allir velkomnir