Október í Bergi

Október í Bergi

Nú er veturinn farinn að minna örlítið á sig með lægðum og hvítum toppum í fjöllunum.

Við hófum mánuðinn á opnun myndlistarsýningar Ingvar Thors þann 1. október. Sýningin var vel sótt en hún mun vera uppi hjá okkur út október. Öll verkin eru til sölu, mörg þeirra eru nú þegar seld en hægt er að nálgast verkin á heimasíðu Ingvars hér.

 

Kaffi Berg opnaði 5. október og mun kaffihúsið vera opið fram að jólum á eftirtöldum tímum:

Miðvikudögum frá 13 - 16 og fimmtudögum frá 13 - 17.

Hægt er að semja um lengri opnunartíma ef hópar vilja koma og njóta saman, best er þá að hafa samband á berg@dalvikurbyggd.is. Við munum byrja hægt og rólega og auka úrvalið með tímanum.

Annan fimmtudag í hverjum mánuði verður lengri opnunartími á Bókasafni Dalvíkurbyggðar. Þá opnar húsið kl. 18 og verður opið fyrir gesti og gangandi til kl. 22. Kaffi Berg verður opið í einhverri mynd á þessum áhugaverðu kvöldum og bjóða upp á veitingar.

 

Tríó Akureyrar ásamt Ellu Völu kemur í heimsókn þann 7. október og heldur uppi stuðinu í salnum.

Þau ætla að syngja og skemmta okkur með áherslu á október - gleði og munum við sjá til þess að nóg verði að veigum í húsinu. Tónleikarnir eru hluti af Klassík í Bergi og styrktir af Menningarráði Dalvíkurbyggðar. Auk þess hafa fjölmörg fyrirtæki í Eyjafirði og í Dalvíkurbyggð tekið sig til og styrkt hópinn í formi happdrættismiða. Vegleg verðlaun verða því dregin út á tónleikunum. Viljum við færa öllum þeim sem styrkja tónleikana alveg sérstakar þakkir fyrir. 

Tónleikarnir hefjast kl. 20 í Bergi og kostar 2.000.- kr inn. Miðinn gildir sem happdrættismiði. Við ætlum líka að bjóða upp á happy hour frá 18 - 20. 

Eftirtaldir aðilar styrkja Tríó Akureyrar á þessum tónleikum:

Niceair: Flugfélag sem hefur án nokkurs vafa veitt íbúum á öllu Norður- og Austurlandi aukin tækifæri til ferðalaga.

Bruggsmiðjan Kaldi: Þau hafa nú opnað hótel sem vert er að skoða og eru í sífelldri þróun í bruggverksmiðjunni sinni.

Vellir: Með útsjónarsemi hafa þau á Völlum fært okkur frábært úrval af vörum í heimabyggð. Reyktir ostar, ís, olíur, sultur og grænmeti hafa ratað á diskana okkar í Draumbláu Fögru.

Norður: Þar svíkur hádegishlaðborðið engan og öruggt að allir ganga þaðan saddir og sælir.

Doría: Þar taka stelpurnar á móti viðskiptavinum og dekra frá toppi til táar og svo margt fallegt að skoða.

Gjafavöruverslunin Prýði: Þar er notaleg stemning og með ljúfum kaffibolla fæst bæði klipping, fótadekur og gjafavara sem prýðir vel öll heimili.

Byggðasafnið Hvoll: Þó að það sé almennt lokað á veturna þá er alltaf ljúft að líta þar inn á sumrin og skoða ísbjörninn væna og Jóhann SVarfdæling. Svo er hægt að fá gjafavöru merkta með minningum úr Dalvíkurbyggð.

Arctic Sea Tours: Ef þið langar að sjá hvali þá ertu í góðum höndum. Hvort sem þú velur eikarbát eða Jet bát þá er farið um þig ljúfum höndum en skipstjórar og leiðsögumenn vita nákvæmlega hvar hvalirnir okkar halda sig hér í Eyjafirðinum.

 

JÓLAHLAÐBORÐ!

Það fer senn að líða að jólum og undirbúningur hafinn í hugum margra, meðal annars okkar. Við leitum að aðilum sem tilbúnir eru að halda utan um jólahlaðborð í Bergi. Verið óhrædd við að hafa samband og viðra hugmyndir á berg@dalvikurbyggd.is.