Nýir tímar í Bergi - Opið fyrir umsóknir!

Fjölbreyttir möguleikar opnast í Menningarhúsinu Bergi
Fjölbreyttir möguleikar opnast í Menningarhúsinu Bergi

- Opið fyrir umsóknir -

Menningarfélagið Berg auglýsir eftir umsóknum fyrir fjölbreytta matarviðburði í Bergi.

 

Stjórn Menningarfélagsins Bergs hefur ákveðið að enginn einn aðili verði með veitingarekstur í Menningarhúsinu Bergi heldur verði opið fyrir hvern sem er að sækja um að vera með hádegismat, kaffihús, kvöldverð, barkvöld eða aðra matarviðburði. Hægt er að sækja um einn dag, helgi, viku. Einstaklingar sem sækja um aðstöðuna með það að leiðarljósi að selja þjónustu borga ekki leigu í Menningarhúsinu Bergi en greiða hins vegar 10% af veltu til Menningarfélagsins Bergs ses.

Hugmyndin er að allir hafi jafna möguleika á að láta ljós sitt skína í Menningarhúsinu okkar. Starfandi veitingaaðilar í Dalvíkurbyggð geta einnig tekið að sér aðstöðuna og haldið stærri viðburði.

Við hvetjum að sjálfsögðu fólk í byggðarlaginu að velja Menningarhúsið til að fagna áföngum lífs síns og hafa frjálst val um hver sér um veitingar. Menningarfélagið Berg hefur sett upp sviðið með fullbúnu eldhúsi og fallegum borðbúnaði í einu fallegasta húsi sveitarfélagsins – nú er það þitt að bjóða til veislu gegn gjaldi eður ei.

Það verður alltaf opið fyrir umsóknir fyrir einkaviðburði og veislur þar sem ekki eru seldar veitingar. Hins vegar í þeim tilfellum þar sem ætlunin er að selja mat eða drykk skulu slík tímabil bókast á tilteknum bókunargluggum.

Árinu verður skipt upp í þrennt og raðast niður á eftirfarandi tíma:

 

Bókunargluggar

Ágúst – desember (auglýst opið til umsóknar í júlí – umsóknatímabil ca 2. vikur)

Janúar – apríl (auglýst opið til umsóknar í nóvember - umsóknatímabil ca 2. vikur)

Maí – ágúst (auglýst opið til umsóknar í mars - umsóknatímabil ca 2. vikur)

Sept – desember (auglýst opið til umsóknar í júlí – umsóknartímabil ca. 2 vikur).

Osfrv.

Fyrsti bókunargluggi er hér með opinn fyrir tímabilið ágúst-des 2020. Opið fyrir umsóknir til kl. 12.00 - 29. Júlí 2020

Stjórn Menningarfélagsins Bergs ses og framkvæmdarstjóri fara yfir umsóknir.

 

Starfsreglur stjórnar vegna bókunarglugga eru eftirfarandi:

Alltaf er opið fyrir umsóknir um aðstöðu fyrir einkaveislu (þ.e. – einkaveislur lúta ekki bókunargluggum) og um þær gildir að fyrstur kemur fyrstur fær.

Dagsetningum og tímum sem eftir standa að lokinni úthlutun fyrir hvert umsóknar-tímabil er ráðstafað til þeirra sem fyrstir óska eftir þeim.

Sæki fleiri en einn aðili um sömu dagsetningu og tíma hefur stjórn eftirfarandi til viðmiðunar við úthlutun:

Gefið eru eitt stig ef eftirfarandi á við um umsækjanda:

• Hefur sjálfur veitingaleyfi á annarri starfsstöð.

• Er veitingaaðili í Dalvíkurbyggð.

• Hefur átt í farsælu samstarfi við Menningarfélagið Berg ses.

• Umsækjandi er skráður með lögheimili í Dalvíkurbyggð.

• Umsækjandi sækir um margar samfelldar dagsetningar.

• Umsókn telst hagkvæm fyrir Menningarfélagið Berg ses.

• Umsókn styður við fjölbreytni og fjölmenningu samfélagsins.

 

Þeir sem sitja í stjórn og varastjórn geta ekki sótt um dagsetningar í umsóknartímabili bókunarglugga en þegar búið er að úthluta þá er þeim frjálst að sækja um lausa daga.

Stjórn og varastjórn getur eins og aðrir alltaf sótt um einkaveislur.

Eftir að hafa fengið staðfestingu um bókun þarf umsækjandi að borga staðfestingargjald 10.000 krónur fyrir hverja dagsetningu. Staðfestingagjaldið gengur upp í 10% þóknun Menningarfélagsins. Ef hlutur Menningarfélagsins nær ekki 10.000 greiðir Menningarfélagið umsækjanda mismuninn til baka að tímabili loknu. Undirritaður er samningur milli umsækjanda og Menningarfélagsins Bergs þar sem farið er yfir skilmála og þeir samþykktir sem viðauki við samning.

Gjald fyrir einkaviðburði, veislur og sölu veitinga fer eftir samþykktri gjaldskrá Menningarfélagsins Bergs.

 

Þetta fyrirkomulag er svo sannarlega hálfgert frumkvöðlastarf og við erum að prófa okkur áfram á meðan við vinnum. Verkefnið er og verður áfram í þróun sem þýðir að við eigum eflaust eftir að reka okkur á einhver vandamál á leiðinni. Við biðjum ykkur því um að sýna okkur biðlund og vinna með okkur að lausnum svo allt nái vel fram að ganga.

 

Umsóknareyðublað, skilmála og gjaldskrá má finna á heimasíðu Menningarhússins Bergs.