Stefna Árskógarskóla

Stefna skólans byggir á eftirfarandi stefnumótun Dalvíkurbyggðar:

Skólastefna Dalvíkurbyggðar 2015, leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli

Sérkennslustefna grunnskóla Dalvíkurbyggðar

Árskógarskóli er notalegur og uppbyggjandi staður þar sem öllum á að líða vel, vitsmunalega örvandi og umhverfið þannig að hver og einn einstaklingur fái tækifæri, óháð því hver hann er og hvaðan hann kemur, til þess að gera sem mest úr þeim hæfileikum sem hann býr yfir. Lögð er áhersla á grunnþætti menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun og að meta þá þætti á fjölbreyttan hátt.

Það er stefna skólans að skólagangan verði til þess að efla sjálfstæði sem og samvinnu nemenda, frumkvæði og þrautseigju í fjölbreyttum verkefnum með áherslu á útikennslu og tengsl við umhverfi og nærsamfélag. Umhverfi skólans býður uppá fjölbreytta náttúru, meli, móa, á, sveit, stutt í fjöru, fuglalíf o.fl. og lögð er áhersla á að tengja nám og leik við þessa paradís. Áhersla er lögð á skapandi verkefni í list- og verkgreinum og að upplýsingaöflun og úrvinnsla sé samofin leik og námi. Skólinn leggur áherslu á fjölbreyttar kennsluaðferðir og að leikurinn sé lykilþáttur í námi yngri nemenda. Áhersla er lögð á fjölbreytta námshópa þar sem einstaklings- og hópamiðað nám er miðað við þroska, áhuga og getu hvers og eins og tækifæri gefast til að samþætta markmið skólagöngu nemenda frá eins árs til tólf ára.

Árskógarskóli er skóli sem gefur hverju barni tækifæri til að þroskast og leika sér af sjálfsdáðum, finna til forvitni, ímyndunar, ánægjulegrar reynslu og samkenndar. Starfsfólk skólans vinnur saman og ber í samvinnu við foreldra ábyrgð á námi, þroska og líðan nemenda. Uppbyggileg og jákvæð mannleg samskipti, umhyggja og ábyrg hegðun allra eru grunnstoðir þess að nemendum líði vel og taki framförum. Þegar heimili og skóli vinna saman á jákvæðan hátt má búast við betri líðan nemenda og meiri möguleikum á að virkja þá hæfileika sem nemandinn býr yfir eða getur tileinkað sér enda leggur starfsfólk sig fram við að eiga góð samskipti við nemendur og heimili. Gagnkvæm virðing og vinátta eru hugtök sem rík áhersla er lögð á í skólanum.

Lokamarkmið Árskógarskóla er, með frábæru hæfu starfsfólki, að finna leiðir í leik og námi til að gera góða manneskju betri, styrkja einstaklinginn og rækta einkenni hans sem koma sér vel við að mennta góða manneskju til alhliða þroska.