Skólastefna

Dalvíkurbyggð, stefna og skipulag fræðslumála
Skólasamfélagið

Yfirstjórn fræðslumála og ábyrgð

Dalvíkurbyggð leggur metnað sinn í að skapa skólasamfélagi sínu góðar aðstæður í aðbúnaði og innra starfi. Skólastefna Dalvíkurbyggðar, lög og námskrár, leggja grunn að hugmyndafræði, inntaki og skipulagi fræðslustarfs. Fræðsluráð Dalvíkurbyggðar fer með fræðslumálefni sveitarfélagsins í umboði bæjarstjórnar.
Hlutverk fræðslusviðs Dalvíkurbyggðar er að vinna að fræðslumálum samkvæmt stefnumótun og starfa að verkefnum sínum í samvinnu við skólastjórnendur og fræðsluráð. Fagleg forysta á skólaþróun og ábyrgð á rekstri hvers skóla er í höndum skólastjóra og önnur stjórnun innan skólans er skilgreind í skólanámskrá.
 

Fræðslusvið

Fræðslusvið nær yfir málefni grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla, símenntunar og framhaldsskóla. Fræðslusvið fylgist með framkvæmd skólahalds, hefur yfirumsjón með áætlanagerð og almennt eftirlit með fræðslustarfi.
 

Ráðgjöf

Fræðslusvið skipuleggur lögbundna sérfræðiþjónustu, þar með talið sálfræðiþjónustu. Einnig veitir hún öllum skólum faglega og rekstrarlega ráðgjöf ásamt aðstoð við úrlausn einstaklingsmála þegar þess er óskað. Markmið ráðgjafar er að gera skólastarf öflugra og starfsfólk sjálfstæðara við úrlausn viðfangsefna sem upp koma í daglegu starfi. Leitast er við að hafa margvísleg úrræði til að mæta sérþörfum nemenda. Fræðslusvið er í samstarfi við félagssvið Dalvíkurbyggðar og heilsugæslu um forvarnir og úrlausnir og eiga foreldrar kost á sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi vegna uppeldi barna sinna. Lögð er áhersla á að starfsmenn fræðslusviðs hafi þá fagmenntun sem þarf til að sinna þeim verkefnum. Aðgang að ráðgjafaþjónustunni hafa nemendur, starfsmenn skólanna og foreldra.
 

Endurmenntun, þróunarstarf og mat.

Hlutverk fræðslusviðs er að styðja og hvetja skólana til framsækins skólastarfs með skólastefnu Dalvíkurbyggðar að leiðarljósi. Það gerir fræðslusvið með því að vera samstarfsaðili við gerð og framkvæmd á:
·    Endurmenntunaráætlun sem tekur mið af markmiðum skólanna og þróunaráætlunum svo og símenntunarþörf einstakra starfsmanna
·    Mati svo sem sjálfsmati og úttektum í þágu áætlunargerðar til þróunar skólastarfs.
·    Þróunarstarfi í samræmi við markmið skólanna.
 

Samstarf skóla

Allir skólar Dalvíkurbyggðar sem þjóna eins til sextán ára börnum hafa með sér gott samstarf í þágu nemenda og heimila. Lögð er áhersla á að stilla saman skóladagatöl allra skólanna. Tónlistarskóli starfar í nánu samstarfi við grunnskóla þar sem hagsmunir nemenda og nýting mannauðs er höfð að leiðarljósi. Samvinna á mótum leik- og grunnskóla er sérstaklega mikilvæg og er hluti skólanámskrár skólanna. Samstarf grunn- og framhaldsskóla miðar markvisst að því að auka sveigjanleika í lengd grunnskólagöngu nemenda og gefur þannig færi á fljótandi skilum milli þeirra skólastiga.
 

Skólavistun - að loknum grunnskóladegi.

Fræðslusvið ber ábyrgð á því að öll grunnskólabörn á aldrinum sex til níu ára eigi kost á dvöl í skólavistun. Tíu til sextán ára börn sem eiga lögbundinn rétt á lengdri viðveru eiga einnig kost á skólavistun.